Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Minjastofnun Íslands tekur til starfa

Starfsemi Fornleifaverndar ríkisins og Húsafriðunarnefndar felld undir eina stofnun.

Minjastofnun Íslands tekur til starfa
Minjastofnun Íslands tekur til starfa


Minjastofnun Íslands  tók til starfa um síðustu áramót þegar þeir stjórnsýsluþættir minjavörslunnar, sem falla undir mennta- og menningarmálaráðuneyti, voru sameinaðir í eina stjórnsýslustofnun með nýjum lögum um menningarminjar, nr. 80/2012 . Stofnunin tók við þeirri starfsemi sem Fornleifavernd ríkisins og Húsafriðunarnefnd hafði á hendi. Minjastofnun skiptist í fagsvið, sem hvort um sig mun starfa í nánu samstarfi við fornminjanefnd og húsafriðunarnefnd. Þá sér stofnunin um umsýslu þeirra tveggja sjóða sem tengjast varðveislu menningarminja, þ.e. fornleifasjóðs og húsafriðunarsjóðs.

Markmiðið með sameiningu þessara málaflokka undir eina stofnun er að einfalda og styrkja stjórnsýsluna, gera hana skilvirkari og þar með að auka réttaröryggi almennings. Sameiningin er auk þess liður í endurskoðun á uppbyggingu þeirra menningarstofnana sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði Kristínu Huld Sigurðardóttur forstöðumann Minjastofnunar en áður var hún forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins. Höfuðstöðvar stofnunarinnar eru á Suðurgötu 39 í Reykjavík en útstöðvar eru í Stykkishólmi, á Sauðárkróki, á Akureyri, á Egilsstöðum og á Skógum.

    Auk ákvæða um sameiningu framangreindra þátta í starfsemi Minjastofnunar Íslands og hlutverk hennar eru nokkur helstu nýmæli menningarminjalaganna eftirfarandi:

  1. Þjóðminjar eru nú í fyrsta sinn skilgreindar ítarlega með hliðsjón af mikilvægi þeirra fyrir íslenska menningarsögu.
  2. Hugtakið þjóðarverðmæti er skilgreint.
  3. Skerpt er á skilgreiningu hugtaksins fornleifar og tekin af tvímæli um mörk milli fornleifa og heilla mannvirkja.
  4. Hugtakið fornleifarannsókn er skilgreint með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur í tæknilegum aðferðum og með hliðsjón af áherslum UNESCO o.fl. alþjóðastofnana á varðveislu menningarminja. 
  5. Hugtakið skyndirannsókn er skilgreint og sett ákvæði um framkvæmd og fjármögnun slíkra rannsókna.
  6. Hugtakið mannvirki er skilgreint á skýrari hátt en áður, aldursmörkum sjálfkrafa friðunar er breytt til að auka vernd merkra mannvirkja og gerður er greinarmunur á sjálfkrafa friðun mannvirkja vegna aldurs og friðlýsingu sem er sérstök ákvörðun ráðherra.
  7. Friðlýsing fornleifa er færð til ráðherra og einnig er skerpt á að friðlýsing sé hugsuð fyrir úrvalsflokk minja sem hafi sérstaka þýðingu fyrir þjóðina.
  8. Minjaverðir, sem falla undir Minjastofnun Íslands, munu sinna víðtækara hlutverki en áður.
  9. Sett eru skýr ákvæði um tímamörk tilkynninga um fund fornleifa, um rask á þeim og viðbrögð Minjastofnunar Íslands.
  10. Ábyrgð á gripum í kirkjum landsins færist til Þjóðminjasafns Íslands.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum