Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mezzoforte og Nordic Affect tilnefnd til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs

Tilkynnt hefur verið hvaða tónlistarmenn, söngvarar og hljómsveitir eru tilnefndar til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2013.

Dómnefnd hefur valið 12 tónlistarmenn, söngvara og hljómsveitir og tilnefnt til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2013. Í þeim hópi eru íslensku hljómsveitirnar Mezzoforte og Nordic Affect.

Mezzoforte hefur starfað í 35 ár og varð þekkt um allan heim árið 1983 fyrir lagið Garden Party og hefur síðan þá verið talin ein mikilvægasta „fusion“ hljómsveit Evrópu. Kammersveitin Nordic Affect var stofnuð árið 2005 til að flytja tónlist frá 18. og 19. öldinni auk þess að flytja nútímatónlist. Hljómsveitin nálgast þekkt tónlistarform frá ólíkum sjónarhornum og fer ótroðnar slóðir í tónlistarflutningi sínum, sem spannar allt frá danstónlist frá 18. öldinni að nútíma raftónlist. Frá hinum Norðurlöndunum voru tilnefnd:

  • Frá Álandseyjum: Vladimir Shafranov píanóleikari.
  • Frá Danmörku: Söngsveitin Theatre of Voices og hljómsveitin Efterklang.
  • Frá Finnlandi: Pekka Kuusisto fiðluleikari og Kimmo Pohjonen harmónikkuleikari.
  • Frá Færeyjum: Eivør Pálsdóttir söngkona.
  • Frá Noregi: Håkon Austbø píanóleikari og Maja Ratkje söngkona.
  • Frá Svíþjóð: Strokhljóðfæratríóið Trio ZPR og raftónlistartvíeykið The Knife.

Frekari upplýsingar um þá sem tilnefndir eru á www.musikpris.org

Tilkynnt verður hver hlýtur tónlistarverðlaunin á Norðurlandaráðsþinginu 30. október nk.  í Ósló.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum