Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fjölbrautaskólinn í Ármúla fær tæki til örvunar og hæfingar fjölfatlaðra nemenda

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenti fyrir hönd Sunnusjóðs Fjölbrautarskólanum í Ármúla skynörvunarbúnað handa fjölfötluðum nemendum. Búnaður þess er ætlaður til kenna þeim að þeir geti haft áhrif á umhverfi sitt.

Fjölbrautaskólinn í Ármúla fær tæki til örvunar og hæfingar fjölfatlaðra nemenda.
Fjölbrautaskólinn í Ármúla fær tæki til örvunar og hæfingar fjölfatlaðra nemenda.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra afhenti fyrir hönd Sunnusjóðs Fjölbrautarskólanum í Ármúla skynörvunarbúnað handa fjölfötluðum nemendum. Búnaður þess er ætlaður til kenna þeim að þeir geti haft áhrif á umhverfi sitt.

Í fréttatilkynningu frá stjórn Sunnusjóðs segir: Sérnámsbrautin í FÁ er móðurbraut fyrir fjölfatlaða nemendur. Stór hluti nemenda á brautinni þarf mikla aðstoð við nám og allar athafnir daglegs lífs. Alls er 31 nemandi á námsbrautinni og munu 9-10 úr þeim hópi fara í skipulega skynörvunartíma þar sem umrædd námsgögn verða notuð í kennslunni. Með tilkomu þeirra á brautina getur skólinn boðið nemendum betur upp á innihaldsríkt nám sem nýtist þeim á meðan þeir eru við nám við skólann og vonandi einnig inn í framtíðina.

Sunnusjóður var stofnaður af hjónunum Ingibjörgu Guðmundsdóttur (f. 1911 - d.1994) og Sverri Sigurðssyni (f.1909 - d.2002) með stofnskrá sem undirrituð var af þeim 22. desember 1983. Sjóðurinn verður því þrjátíu ára á þessu ári. Á síðari áratugum hefur fyrirtækið Katla matvælaiðja ehf. verið aðalbakhjarl sjóðsins fjárhagslega samkvæmt samningi við fyrirtækið. Með framlögum frá Kötlu ehf. er árlegt ráðstöfunarfé sjóðsins nú um 1,5 m.kr.

Í upphafi var sjóðnum ætlað að styðja kaup á kennslugögnum og þjálfunarbúnaði fyrir fjölfatlaða nemendur á grunnskólaaldri. Um var að ræða nemendahóp við Safamýrarskóla sem þurfti allt annars konar kennslu, námsgögn og tæknibúnað en aðrir nemendur fá og oftast mun dýrari. Fjármunir til kaupa á slíkum tækjum voru þá afar takmarkaðir eins og enn er í skólum landsins. Þessum hópi hefur Sunnusjóður fylgst með og einnig úthlutað í þeirra þágu eftir að skólagöngu lýkur til að stuðla að áframhaldandi örvun og þroska þeirra. Má þar nefna styrki til dagvistunarheimila, hæfingarstöðva, sambýla og framhaldsskóla sem þeim þjóna. Í dag styður sjóðurinn sambærilegan hóp í Klettaskóla, auk nemenda annars staðar á landinu. Þar sem Klettaskóli er ráðgjafarskóli á lands vísu er leitað til hans víða að vegna nemenda með ýmsar sérþarfir m.a. fjölfötlun. Sjóðurinn þjónar þannig mennta- og þroskaþörfum fjölfatlaðra einstaklinga hvar sem er á landinu.

 Við úthlutun styrkja úr Sunnusjóði, er miðað við að styrkþegar séu með eftirfarandi fatlanir:

  • Mikla andlega þroskahömlun og sýni þess vegna takmarkaðar framfarir.
  • Mikla hreyfihömlun, noti hjólastól eða gangi með stuðningi, auk vanvirkni handa
  • Þeir þurfi aðstoð við allar athafnir daglegs lífs.

Styrkurinn skal nýtast þeim til náms, örvunar og til að auka lífsgæði þeirra.

Að sama skapi styður sjóðurinn kennara, þroskaþjálfa og annað starfsfólk sem sér um kennslu og þjálfun þessara einstaklinga.

 

Formaður sjóðsstjórnar er Guðrún Jóna Ásgrímsdóttir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum