Hoppa yfir valmynd
4. mars 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nám á háskólastigi á Norðurlöndum og skólagjöld

Nýjar skýrslur frá Norrænu ráðherranefndinni.

Norræna ráðherranefndin hefur gefið út skýrslu um nám á háskólastigi á Norðurlöndum. Í fréttatilkynningu frá ráðherranefndinni segir m.a.:

„Í skýrslunni„Højere uddannelse i Norden“ eru bornar saman staðreyndir um námsmenn í norrænu ríkjunum. Þessar upplýsingar geta myndað grunn að betri innsýn í og skilningi á æðri menntakerfum á Norðurlöndum. Þær má einnig nota sem grundvöll samanburðar við önnur ríki og til að vekja athygli á og markaðssetja æðri menntastofnanir á Norðurlöndum á alþjóðavettvangi.

Auk talna frá ýmsum árum, er félagslegur bakgrunnur kannaður og tengsl menntunar og atvinnu. Samanburður sýnir að fjöldi kandídatsgráða (BSc) og doktorsgráða (PhD) fer vaxandi á Norðurlöndum, en námsmenn á Norðurlöndum eru enn lengi að ljúka námi sínu og að þar eru ekki fleiri sem ljúka námi en meðaltal í OECD og ESB sýnir.

Konur á Norðurlöndum ljúka frekar námi en karlar og norrænar konur eru einnig líklegri til að brjóta félagslega arfleifð. Atvinnuleysi nýútskrifaðra með æðri menntun á Norðurlöndum er lægra en í ESB ríkjum og einstaklingar með æðri menntun á Norðurlöndum skora hátt í mjúkum gildum, t.d. kjósa fleiri þeirra í almennum kosningum, starfa við draumastarfið og eru ánægðir með lífið“.

Þá hefur ráðherranefndin einnig sent frá sér skýrslu um námskostnað erlendra námsmanna (þ.e. þeirra sem ekki eru frá ESB/EES ríkjunum) á Norðurlöndum. Skýrslan nefnist „Tuition fees for international students“ og í henni er námskostnaður þessara erlendu námsmanna Norðurlöndum kortlagður og hvaða áhrif hann hefur á fjölda námsmanna. Danir tóku upp skólagjöld árið 2006 og Svíar 2011. Skýrslan sýnir að Danir misstu mikinn fjölda námsmanna þegar skólagjöld voru sett á en fjöldinn hóf að vaxa á ný eftir tvö til þrjú ár. Í Svíþjóð fækkaði námsmönnum úr 8000 í 2000 þegar skólagjöldin voru sett á.

Í Noregi og á Íslandi eru ekki skólagjöld og í báðum þessum löndum hefur fjöldi námsmanna frá löndum utan ESB/EES vaxið undanfarin fimm ár. Það gefur til kynna að námsmenn velja að stunda nám í Noregi og á Íslandi vegna skólagjalda í Danmörku og Svíþjóð. Í Finnlandi stendur yfir tilraunaverkefni þar sem gjöld eru innheimt fyrir 41 námsleið á árabilinu 2010-2014 og verður fylgst með tilraunaverkefninu áður en ákvörðun verður tekin um skólagjöld eður ei.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum