Hoppa yfir valmynd
5. mars 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Skóli án aðgreiningar

Málþing um skóla margbreytileikans og stoðkerfi skóla.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið stóð fyrir málþingi 5. mars í samstarfi við og með þátttöku margra hagsmunaaðila. Sjónum var beint að skólagöngu nemenda með sérþarfir og umræðu um stefnu um skóla án aðgreiningar, sem fylgt hefur verið hér á landi mörg undanfarin ár. Stefnan er m.a. lögfest í lögum um leik- og grunnskóla og útfærð í reglugerðum og aðalnámskrám. Á málþinginu var farið yfir framkvæmd stefnunnar, innleiðingu reglugerða og rædd voru helstu álitamál, áskoranir og tækifæri, m.a. um sérfræðiþjónustu og stoðkerfi skóla. Málþingsstjórar voru Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ. Sérstakir gestir voru Amanda Watkins, aðstoðarforstjóri Evrópumiðstöðvar fyrir þróun í sérkennslu og Lizanne DeStefano, professor við háskólann í Illinios ásamt þremur fulltrúum í matshópi Evrópumiðstöðvarinnar.

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði málþingið auk þess að taka þátt í pallborðsumræðum . Í ávarpi sínu sagði hún m.a.: „Í allri umræðu um stefnumótun og framkvæmd skólastarfs verðum við að hafa að leiðarljósi alþjóðlega sáttmála og yfirlýsingar sem við höfum undirgengist og leita leiða til að ná þeim markmiðum sem þar eru sett. Á sama tíma þurfum við ávallt að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi og tryggja að börn njóti bernsku sinnar í skólastarfi. Í því sambandi er mikilvægt að í skólum sé fagmenntað starfsfólk, að allir aðilar skólasamfélagsins vinni vel saman, hlustað sé eftir sjónarmiðum foreldra og að fullnægjandi sérfræðiþjónusta sé í boði til að tryggja jafnrétti til náms. Eins verðum við að hafa í huga að þótt stefnan um skóla án aðgreiningar hafi verið lögfest hér á landi þá þýðir það ekki að loka eigi öllum sérúrræðum eða sérskólum. Farsæl framkvæmd stefnunnar byggir á að heildarhagsmunir barna séu bornir fyrir brjósti og þar séu mannréttindi, lýðræði, jafnrétti og félagslegt réttlæti ávallt höfð að leiðarljósi“.

Málþing um skóla margbreytileikans og stoðkerfi skóla

Þátttakendur í pallborðsumræðum: 

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Amanda Watkins, aðstoðarforstjóri Evrópumiðstöðvar fyrir þróun í sérkennslu, Lizanne DeStefano, prófessor við háskólann í Illinios, Kristín Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri Skólaskrifstofu Suðurlands, Ketill Berg Magnússon, formaður Heimilis og skóla og Þórður Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum