Hoppa yfir valmynd
15. mars 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Góðar móttökur á Nordic Cool

Norrænu menningarhátíðinni í Washington lýkur um helgina.

Norrænu menningarhátíðinni Nordic Cool í Washington í Bandaríkjunum lýkur um helgina. Hátíðin, sem hófst 19. febrúar sl.,  er haldin í Kennedy  menningarmiðstöðinni, einni virtustu menningarmiðstöð í Bandaríkjunum.  Að sögn forsvarsmanna hátíðarinnar hefur aðsókn verið mjög góð og mikil fjölmiðlaumfjöllun. Alls komu fram um 750 norrænir listamenn og þar af voru um 120 þátttakendur frá Íslandi. Uppselt var á sýningu Íslenska dansflokksins og um 2300 börn nutu tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar með Maximus Musikus svo dæmi séu tekin.

Kynning Iceland Airwaves á nokkrum íslenskum hljómsveitum tókst einstaklega vel og fengu Sóley, Retro Stefson og FM Belfast góða aðsókn og umfjöllun í fjölmiðlum . Sama er að segja um önnur íslensk dagskráratriði s.s. tónleika Tríós Sunnu Gunnlaugs, Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Víkings Heiðars Ólafssonar og Duo Harpverks. Vesturport sýndi Hamskiptin, íslenska myndin Djúpið var sýnd,  íslenskir rithöfundar tóku þátt í bókmenntakynningum, íslensk hönnun og arkitekúr voru hluti af norrænum sýningum, kenndur var prjónaskapur, íslensk matargerð kynnt, verkið Archive – Endangered Waters  eftir Rúrí var sýnt og íslenskir þátttakendur voru í pallborðsumræðum.

Það er mikils virði fyrir íslenska listamenn að fá tækifæri til að koma fram í jafn öflugri menningarstofnun og Kennedy Center er og sýna hvað íslenskt listalíf hefur upp á að bjóða.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum