Hoppa yfir valmynd
22. mars 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Grundaskóli hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla árið 2012

Katrín Jakobsdóttir heimsótti skólann og skrifaði undir samstarfssamning til næstu fjögurra ára við Heimili og skóla - landssamtök foreldra.

Grundaskóli hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla árið 2012
Grundaskóli hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla árið 2012

Heimili og skóli – landssamtök foreldra og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa gert með sér samstarfssamning til næstu fjögurra ára. Er þetta í fyrsta skipti sem samningurinn nær yfir svo langt tímabil.

Samningurinn var undirritaður þegar Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra  og Ketill B. Magnússon formaður Heimilis og skóla, heimsóttu Grundaskóla á Akranesi. Grundaskóli hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla árið 2012 fyrir söngleikjaverkefni sitt og hefur sú hefð skapast að ráðherra mennta- og menningarmála ásamt formanni og framkvæmdastjóra Heimilis og skóla heimsæki verðlaunahafa og fái kynningu á verðlaunaverkefninu.

„Ráðuneytið væntir mikils af þessum samningi og treystir því að samtökin nái enn frekar að eflast sem stuðningsaðili við foreldra. Í því sambandi lítur ráðuneytið sérstaklega til kynningar á nýjum aðalnámskrám og samstarfi við foreldra við innleiðingu meginhugmynda nýrra aðalnámskráa í skólastarfi á komandi árum,“ sagði Katrín og bætti við: „Ég tel að mörg tækifæri séu fyrir Heimili og skóla og foreldra almennt að þróa samstarf heimila og skóla með það að markmiði að stuðla að bættri menntun, öryggi og velferð nemenda í anda nýju aðalnámskránna.“

Í samningnum felst líkt og áður að Heimili og skóli munu annast ráðgjöf fyrir foreldra barna í leik-, grunn- og framhaldsskólum og samtökin munu einnig annast þjónustu og upplýsingagjöf við foreldra- og skólaráð og foreldrafélög. Einnig er gert ráð fyrir að samtökin vinni að eflingu svæðasamtaka foreldra- og skólaráða og foreldrafélaga en meginmarkmið Heimilis og skóla er að stuðla að bættum uppeldis- og menntunarskilyrðum barna með því að hvetja til og styðja við öflugt samstarf heimila og skóla í landinu. Árið 2013 verður sérstök áhersla lögð á að kynna nýja aðalnámskrá fyrir grunnskólaforeldrum og munu samtökin m.a. ferðast um landið og halda fræðslufundi í því skyni og gefa út fjölbreytt kynningarefni.

Grundaskóli hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla árið 2012Ráðherra kynnir sér verðlaunaverkefni Grundaskóla um söngleiki á unglingastigi.
Frá vinstri. Ketill Magnússon formaður Heimilis og skóla, Hrönn Ríkarðsdóttir skólastjóri Grundaskóla og Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum