Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Skák eflir skóla

Niðurstöður nefndar um gildi skákkennslu í skólum.

Í ársbyrjun 2013 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra nefnd sem var falið að kanna kosti skákkennslu í grunnskólum með sérstakri áherslu á áhrif skákkennslu á námsárangur og félagslega færni barna.  Nefndinni var falið að kortleggja stöðu skákkennslu í grunnskólum á Íslandi, afla gagna og vitnisburða og rýna í alþjóðlegar rannsóknir á áhrifum skákiðkunar í skólum. Auk þess var nefndinni falið að gera tillögur að tilraunverkefni á sviði skákkennslu.

Í nefndina voru skipuð þau Anna Kristín Jörundsdóttir, kennari, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Alþingismaður, sem jafnframt var skipuð formaður, Helgi Árnason, skólastjóri, Helgi Ólafsson, skólastjóri, Hrafn Jökulsson, rithöfundur, Lenka Ptácníková, stórmeistari kvenna og Stefán Bergsson, framkvæmdastjóri. Stefán Baldursson, skrifstofustjóri, starfaði með nefndinni af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Nefndin skoðaði erlendar rannsóknir sem fyrir liggja um áhrif skákkennslu á skólastarf og jafnframt var innlendum vitnisburðum safnað saman um reynslu skólastjórnenda, kennara og foreldra af gildi skákiðkunar í skólum. Nefndin framkvæmdi einnig sérstaka könnun meðal skólastjóra allra grunnskóla landsins um stöðu skákiðkunar í almennu skólastarfi og áhuga á aukinni skákkennslu. Þá var fyrirliggjandi kennsluefni á íslensku í skák metið og þörfin fyrir frekara námsefni greind.

Nefndin skilaði mennta- og menningarmálaráðherra tillögum sínum þann 14. mars 2013. Komst hún að þeirri niðurstöðu að sannfærandi rök væru fyrir því að taka upp formlega skákkennslu í skólum á skólatíma. Byggir nefndin þá niðurstöðu á erlendum rannsóknum á áhrifum skákiðkunar á nemendur og skólastarf og miklum áhuga skólastjóra á aukinni skákkennslu. Leggur nefndin til að ráðuneytið komi á þriggja ára tilraunaverkefni í völdum grunnskólum þar sem áhersla verði lögð á að hefja skákkennslu strax í upphafi skólagöngu barna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum