Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Alþjóðlega barnabókadeginum fagnað

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra birti rafbækur með ævintýrum og sögum H.C. Andersen, sem sjálfboðaliðar Rafbókavefsins hafa lesið yfir.

Alþjóðlega barnabókadeginum var fagnað á afmælisdegi H.C. Andersen 2. apríl sl. á Borgarbókasafninu. Við það tækifæri birti Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra rafbækur með ævintýrum og sögum H.C. Andersen, sem sjálfboðaliðar Rafbókavefsins hafa lesið yfir.

Rafbókarvefurinn er meistaraverkefni í hagnýtri menningarmiðlun unnið af Óla Gneista Sóleyjarsyni. Vefurinn á að hýsa allskonar efni á rafbókarformi sem er hentugt að lesa með rafbókalesurum og spjaldtölvum. Efnið er opið öllum og gjaldfrjálst. Iðnskólinn í Hafnarfirði hýsir verkefnið.

Vefurinn byggir m.a. á þátttöku áhugafólks um rafbækur og er dreifður prófarkalestur hluti af verkefninu. Unnið er að því að koma upp prófarkalestursvef og um hann segir m.a. á vefsíðunni:

„Prófarkalestursvefur Rafbókavefsins hefur það markmið að koma prentuðu íslensku efni á rafrænt form. Með því að deila verkinu á marga getum við komið meiru í verk. Stefnan er fyrst og fremst sett á bækur sem komnar eru úr höfundarétti en við erum opin fyrir því að höfundarétthafar leyfi okkur að koma efni þeirra á rafbókaform svo lengi sem rafræn dreifing þess verði án endurgjalds. Þegar um er að ræða efni sem komið er úr höfundarétti gerum við ekkert tilkall til þess að stjórna hvernig það verður notað í framtíðinni“. Markmiðið er að gera aðgengilegar rafrænar útgáfur bóka sem eru komnar úr höfundaréttarvernd sem og bóka sem höfundar hafa veitt leyfi fyrir að verði rafvæddar.

Í tilefni Alþjóðlega barnabókadagsins var lögð áhersla á Ævintýri og sögur H.C. Andersen en fleiri rafbækur sem sjálfboðaliðar Rafbókarvefsins hafa lesið yfir voru einnig birtar. Meðal efnis sem sjálfboðaliðar eru að lesa yfir eru Hómerskviður og Þjóðsögur Jóns Árnasonar.

Alþjóðlega barnabókadeginum fagnaðÁ myndinni eru Pálína Magnúsdóttir borgarbókavörður, Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Óli Gneisti Sóleyjarson ritstjóri Rafbókavefsins og Ársæll Guðmundsson skólameistari Iðnskólans í Hafnarfirði

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum