Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menningarsjóður Stofnunar Gunnars Gunnarssonar

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra undirritaði skipulagsskrá Menningarsjóðs Stofnunar Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustr.
Menningarsjóður Stofnunar Gunnars Gunnarssonar
Gunnarsstofnun

Þann 16. apríl fór fram undirritun skipulagsskrár Menningarsjóðs Stofnunar Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri.  Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra  ritaði undir fyrir hönd ráðuneytisins og Sigríður Sigmundsdóttir varaformaður stjórnar Gunnarsstofnunar, ritaði undir  fyrir hönd Gunnarstofnunar.

Tilgangur menningarsjóðsins er tvíþættur: Annars vegar að renna stoðum undir starfsemi Stofnunar Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri með árlegum framlögum til hennar; hins vegar að styðja rithöfunda, listamenn, fræðimenn og námsfólk til verka er samræmast fjölþættu hlutverki stofnunarinnar. Sjóðnum er því bæði ætlað að efla menningarstarf á Skriðuklaustri og styrkja ímynd Gunnarsstofnunar sem menningarstofnunar á landsvísu.

Stofnandi menningarsjóðsins er mennta- og menningarmálaráðuneyti en þeir sem gerast sérstakir styrktaraðilar fyrir 18. maí 2014 teljast einnig til stofnenda hans. Heildarfjárhæð stofnfjár er  43.412.013 kr. eða sem samsvarar þeim fallbótum sem Landsvirkjun greiddi íslenska ríkinu fyrir vatnsréttindi Skriðuklausturs við Jökulsá á Dal vegna lands Brattagerðis.

Auglýst verður árlega eftir umsóknum í menningarsjóðinn og úthlutað af sjóðstjórn eftir úthlutunarreglum sem stjórnin setur. Í stjórn sitja þrír og einn til vara. Stjórn Gunnarsstofnunar skipar tvo fulltrúa og varamann en mennta- og menningarmálaráðherra einn fulltrúa úr hópi afkomenda skáldsins.

Geret er ráð fyrir að úthluta árlega úr sjóðnum á fæðingardegi Gunnars Gunnarssonar, 18. maí og fyrsta úthlutun fari fram vorið 2014 þegar 125 ár verða liðin frá fæðingu skáldsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum