Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Innleiðing á breytingum í skólastarfi samkvæmt nýjum námskrám

Í þessari áætlun um innleiðingu á breytingum í skólastarfi samkvæmt nýjum námskrám er gerð grein fyrir helstu verkefnum fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólastig til vorannar 2015 en þá er miðað við að námskrárnar taki að fullu gildi.

Í þessari áætlun um innleiðingu á breytingum í skólastarfi samkvæmt nýjum námskrám er gerð grein fyrir helstu verkefnum, fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólastig til vorannar 2015 en þá er miðað við að námskrárnar taki að fullu gildi. Þessi áætlun tekur einungis til sérverkefna, sem skipulögð er á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og varða beint innleiðinguna. Hafa ber því í huga að til viðbótar eru ýmis önnur verkefni bæði á vegum ráðuneytisins og annarra sem vinna að og styðja við innleiðinguna, þar á meðal að vinna að nýrri vinnutímaskilgreiningu kennara.

Miðað er við að nýtt námsmat við lok grunnskóla verði fyrst notað á vorönn 2015. Miðað er við að allir framhaldsskólar kenni samkvæmt nýjum námsbrautalýsingum á haustönn 2015.

1. Ráðuneytið leggur áherslu á að veita stuðning við kennara þvert á skólastig. Helstu verkefni eru:


a.       Fagráð um símenntun og starfsþróun kennara þvert á skólastig

Fagráðið hefur verið skipað og því er m.a. ætlað að greina þarfir, setja fram stefnu og tryggja að hagsmunaaðilar hafi samráð um starfsþróun kennarastéttarinnar. Fagráðið skipa fulltrúar kennara, stjórnenda, kennaramenntunar og ráðuneytis.

b.      Starfsþróunarvefur kennara

Búið er að forrita fyrstu útgáfu af vef, sem ætlað er að birta námskeið og símenntunartilboð, sem beint er sérstaklega til kennara. Gert er ráð fyrir vefurinn verði virkjaður fyrir sumarið og að hann birtist á http://namskra.is

c.        Upplýsingar og vinnuvefur fyrir skólasamfélag– http://namskra.is/

Svokallaður vinnuvefur fyrir skólasamfélagið hefur verið virkur á slóðinni vinnuvefur.namskra.is um nokkurn tíma. Hann hefur aðallega þjónað framhaldsskólastiginu en þar hafa einnig verið birt ráðstefnugögn, s.s. í tengslum við haustþing um grunnþætti sem haldið var 2012. Nú er unnið að því að virkja vefinn fyrir öll þrjú skólastigin. Á vefnum eru birt ýmis gögn sem nýtast skólasamfélaginu við gerð skólanámskrár og skipulag náms og kennslu. Einnig er þar innskráning á námskrárgrunn ráðuneytisins sem þjónar bæði framhaldsskólum og framhaldsfræðsluaðilum.

d.      Þemahefti fyrir kennara       

  1. Námsgagnastofnun hefur unnið að gerð 6 þemahefta um grunnþætti. Þrjú heftir hafa verið prentuð og dreift til skóla og hagsmunaaðila. Tvö eru komin út rafrænt og verður prentuðum eintökum dreift fljótlega. Síðasta heftið um jafnrétti er á lokametrunum og er stefnt á útgáfu og prentun á vorönn 2013. http://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/themahefti-menntunar/nr/7349
  2. Unnið er að gerð þemaheftis um námsmat og stefnt á rafræna útgáfuá vorönn 2013. Þemaheftið er liður í innleiðingu hæfnihugsunar nýs einkunnakerfis sem aðalnámskrá grunnskóla kveður á um. Ritið mun fyrst og fremst nýtast grunnskólakennurum en umfjöllun um námsmat og námsmatsaðferðir geta einnig nýst framhaldsskólakennurum.

e.      Innleiðing grunnþátta

Áfram verða í boði ýmis námskeið fyrir kennara sem tengjast innleiðingu og virkjun grunnþátta.

f.        Málþing um námsmat þvert á skólastig í ágúst 2013

Haustið 2013 er gert ráð fyrir að haldið verði málþing um námsmat þvert á skólastig og það taki mið af málþingi, sem haldið var haustið 2012 um grunnþætti. Það var haldið í samstarfi ráðuneytisins, KÍ og Samband sveitarfélaga ogsamhliða því voru málstofur í víða um land. http://vinnuvefur.namskra.is/malthing/

g.      Skipulag, gerð og birting gæðamatskerfis

Grunnhugmynd hefur verið unnin með Námsmatsstofnun en gert er ráð fyrir að þróa áfram útfærslu, skipulag og framkvæmd vottunar náms á hæfniþrep. Verklok eru áætluð fyrir 2015.

h.      Eftirlit og mat með innleiðingu

Unnið er í ráðuneytinu að matsáætlun er tengist innleiðingunni. Gerð er tillaga um að skilgreindar séu vörður um innleiðinguna og þær notaðar sem útgangspunktar við mat. Hér að neðan er dæmi um vörður og þætti sem gætu legið til grundvallar.

  nams

 

 














2. Ráðuneytið leggur áherslu á að kynna foreldrum og hagsmunaaðilum þær breytingar sem nýjar námskrár boða            

a.       Kynningar á vegum Heimilis og skóla árið 2013

Heimili og skóli hefur tekið að sér að halda kynningarfundi í öllum landshlutum fyrir foreldra nemenda á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi um nýjar áherslur í námskrám, s.s. grunnþætti, hæfni og nýtt námsmat. Í tengslum við kynningarfundina verða gerð myndbönd og sett inn á vef Heimilis og skóla. Miðað er við að fundirnir fari fram árið 2013 og hefjist um vorið.

b.       Nám til framtíðar - Kynningarblað í apríl 2013

Föstudaginn 12. apríl var kynningarblaði ráðuneytisins dreift um allt land. Í blaðinu er lögð áhersla á að veita fréttir af innleiðingu nýrrar menntastefnu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi í tengslum við útgáfu nýrra námskráa. Gert er ráð fyrir að öðru kynningarblaði verði dreift með sama hætti í síðasta lagi 2015.

c.       Vefurinn namtilframtidar.is - kynning fyrir nemendur, foreldra o.fl. í apríl 2013

Kynningarvefur um hæfni og grunnþætti fyrir almenning var opnaður samhliða útgáfu kynningarblaðsins hér að ofan.


3. Ýmis verkefni er varða sérstaklega innleiðingu í grunn- og leikskólum.                 

a.      Útgáfa greinasviðs grunnskóla, prentun og dreifing

Í apríl 2013 lauk prentun á Aðalnámskrá grunnskóla, almennur hluti 2011 og greinasvið 2013 og er heftinu dreift til skóla og hagsmunaaðila. Miðað er við að allir grunnskólakennarar fái eintak af námskránni. Rafræn útgáfa hefur verið birt á vef ráðuneytisins.

b.      Lykilhæfniveggspjald

Veggspjald með lykilhæfniviðmiðum fyrir 4., 7. og 10. bekk hefur verið dreift til grunnskóla með námskránni og skólastjórnendur hvattir til að hengja það upp í öllum skólastofum. Veggspjaldið er einnig á rafrænu formi á vef ráðuneytisins.

c.       Leiðtogi í heimabyggð:

Ráðuneytið stendur fyrir námskeiði sem er sérstaklega skipulagt til að virkja leiðtoga í heimabyggð. Námskeiðið er ætlað skólastjórnanda og kennara í hverjum grunn- og leikskóla. Á vorönn 2013 verður áhersla lögð á stefnumótun í tengslum við skólanámskrárgerð. Ef vel gengur er stefnt að framhaldsnámskeiði veturinn 2013-14 sem leggur áherslu á grunnþætti og námsmat. Námskeiðunum er einnig ætlað að leiða saman leiðtoga í landshlutum þannig að þeir geti notið stuðnings hver af öðrum.

d.      Samræmt próf í nýju kerfi/prófa- og verkefnabanki

  1. Námsmatsstofnun vinnur að þróun samræmds prófs í tengslum við nýjar greinanámskrár og nýja framsetningu námsmats. Unnið er að ákvörðun um verklag við yfirfærslu yfir í nýtt einkunnakerfi og miðað við að haustið 2014 verði bókstafir nýttir við einkunnagjöf í samræmdum prófum til reynslu.

  2. Kannaðir verða möguleikar á að Námsmatstofnun birti verkefni og prófspurningar sem einkenni mismunandi einkunnir A, B, C og D. Þessi prófa- og verkefnabanki yrði liður í innleiðingu nýs námsmats í grunnskólum.

4. Ýmis verkefni er varða framhaldsskólana sérstaklega                   

a.    Námskrárgrunnur – vinnutæki fyrir kennara og skólastjórnendur

Önnur útgáfa af námskrárgrunninum var opnaður í lok febrúar 2013. Hann þjónar fyrst og fremst framhaldsskólastiginu og framhaldsfræðslu, og nýtist við gerð námsbrauta og námskráa, sem senda skal ráðuneytinu til staðfestingar og vottunar. Námskrárgrunnurinn hefur verið fluttur til Námsmatsstofnunar, sem hefur yfirumsjón með forritun, viðhaldi og uppfærslu. Ráðuneytið tekur við athugasemdum, veitir upplýsingar og aðstoðar þá sem vinna í grunninum. Kennsla og leiðsögn um námskrárgrunn.

b.    Kennsla og leiðsögn um námskrárgrunn

Árið 2013 mun ráðuneytið standa fyrir kynningum og námskeiðum eftir því sem þörf þykir. Leiðsögn ráðuneytisins er fyrst og fremst fyrir þá sem stýra námskrárvinnunni innan hvers skóla, s.s. skólastjórnendur og námskrárstjóra. Ætlast er til að þeir sjái svo um leiðsögn innan skólans.

c.    Innleiðing hæfniþrepa

  1. Hæfnikröfur starfa. Starfsgreinaráðin hafa unnið að því að skilgreina hæfnikröfur starfa. Eftir er að ljúka og gera upp síðustu hæfnikröfurnar en þær eru birtar á vinnuvef namskra.is. Einnig er miðað við að starfsgreinaráðin vinni hæfnikröfur nýrra starfa vegna námskrárgerðar á framhaldsskólastigi.

  2. Notkun viðmiðaramma hefur gefist vel við að skilgreina störf og hæfnikröfur náms í tengslum við hæfniþrep. Veturinn 2012-13 hafa hópar hagsmunaaðila og sérfræðinga unnið að gerð viðmiðaramma fyrir hestamennsku, íþróttir, upplýsingatækni, samfélagsgreinar og náttúrugreinar. Þegar viðmiðarammar liggja fyrir eru þeir birtir á vinnuvef namskra.is. Gert er ráð fyrir að fleiri viðmiðarammar verði unnir á árinu 2013.
  3. Aðgangsviðmið/hæfnikröfur háskóla. Í samningum ráðuneytisins við háskólana er gert ráð fyrir að skólarnir skilgreini aðgangsviðmið fyrir allar deildir fyrir 2015. Vinnan er að hefjast af hálfu skólanna og mun ráðuneytið veita leiðsögn og eftirfylgni á tímabilinu. Jafnframt verður unnið að því að skipuleggja og virkja umsagnarkerfi um nýjar námsbrautir til stúdentspróf.

  4. Hæfnirammi um íslenskt skólakerfi. Sjö þrepa hæfnirammi hefur verið kynntur fyrir rektorum háskólanna og er gert ráð fyrir að á vorönn 2013 verði hann settur í opinbert umsagnarferli. Í framhaldi af því verður farið yfir athugasemdir og ramminn gefinn út.

d.    Nýjar námsbrautir

Vorið 2013 hefur ráðuneytið ákveðið að gefa framhaldsskólum möguleika á að sækja um styrki til að vinna saman, tveir eða fleiri, að gerð námsbrautalýsinga í verk- og starfsnámi. Stefnt er að því að fyrir haustið 2015 verði búið að skipuleggja og staðfesta a.m.k. eina námsbraut fyrir hverja virka starfsgrein framhaldsskólans. Jafnframt verði tryggðar nokkrar útfærslur af framhaldsskólaprófi með námslok á fyrsta og öðru hæfniþrepi.

e.    Styrkir til skóla til að vinna að skólanámskrárgerð

Ráðuneytið hefur ákveðið að styrkja skólanámskrárgerð, þ.e. vinnu við stefnumótun, virkjun og útfærsla grunnþátta, skipulag námsbrauta og áfangasmíði. Styrkupphæð tekur mið af stærð skóla, fjölda námsbrauta og hversu mikla styrki skólinn hefur fengið frá ráðuneytinu til þróunarvinnu.

f.     Innleiðingarnámskeið fyrir kennara

Starfsárin 2013-15 stefnir ráðuneytið á að skipuleggja stuðning og leiðsögn fyrir stjórnendur og kennara í framhaldsskólum í tengslum við innleiðingu.

g.    Sérstök námskrárverkefni

  1. Umsögn með framhaldsskólaprófi hefur verið í vinnslu á vegum ráðuneytisins. Gert er ráð fyrir að ljúka verkinu á vorönn 2013 og birta á vinnuvef namskra.is
  2. Lög um framhaldsskóla og aðalnámskrá gerir ráð fyrir gerð viðmiðunarspurninga í kjarnagreinum fyrir stúdentspróf. Gert er ráð fyrir að verkefnið verði unnið á árinu  2013, e.t.v. í samráði við Námsmatstofnun.
  3. Leiðbeinandi listi vegna yfirfærslu nemenda í nýtt kerfi. Vinna við verkið er hafin, þar sem upplýsingum um mat milli kerfa hefur verið aflað frá framhaldsskólum. Stefnt er að virkja fagkennarafélögin í þessari vinnu og hún verði framkvæmd 2013-14.

h.   Staðfesting námsbrauta

Unnið er að staðfestingarferli námsbrauta og ráðgert að fyrstu námsbrautirnar verði staðfestar 2013.

  1. Umsagnarferli: Miðað er við að starfsnámsbrautir séu sendar í umsögn til starfsgreinaráða, sem kalla til fagaðila við matið. Þá verður kannað með hvaða hætti best sé að fá umsagnir frá háskólastiginu um námsbrautir til stúdentsprófs.
  2. Úrskurðarnefnd: Á tímabilinu 2013-14 mun ráðuneytið skipuleggja vinnulag við úrskurði um tengingu námsloka við hæfniþrep. Til athugunar eru tillögur um að skipuð verði sjálfstæð úrskurðarnefnd með fulltrúum ráðuneytisins og ýmissa hagsmunaaðila, s.s. háskóla, framhaldsskóla, starfsmenntunar og framhaldsfræðslu.

5. Framhaldsfræðsla

a.    Útgáfa gæðaviðmiða

Lokadrög að gæðaviðmiðum fyrir námskrárgerð innan framhaldsfræðslu liggur fyrir. Gert er ráð fyrir rafrænni útgáfu vor 2013.

b.    Námskrárgrunnur

Samkvæmt lögum og reglugerð um framhaldsfræðslu geta vottaðir fræðsluaðilar sent námskrár til vottunar/staðfestingar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Fræðsluaðilar skrifa námskrárnar í námskrárgrunn fyrir framhaldsfræðslu og senda þær þaðan til staðfestingar í ráðuneytið. Fyrsta útgáfa námskrárgrunnsins er á lokastigi og er reiknað með að hann verði opnaður vorið 2013

c.    Kynning á námskrárgerð í námskrárgrunni

Stefnt er á kynningu og leiðsögn um notkun grunnsins veturinn 2013-14.

d.    Staðfesting námsskráa

Ráðuneytið mun vinna skipulag og útfærslu við vottun námskráa í framhaldsfræðslu.

e.    Tengsl náms innan framhaldsfræðslu við framhaldsskóla

Stjórnvöld leggja áherslu á að auðvelda nemendum, sem stundað hafa nám innan framhaldsfræðslu, að fá nám sitt metið innan formlega framhaldsskólakerfisins. Við námsbrautagerð og þróun náms í framhaldsskólum samkvæmt nýrri aðalnámskrá er hvatt til þess að framhaldsskólar í samstarfi við vottaða fræðsluaðila skipuleggi heildstætt nám til framhaldsskólaeininga (námspakki).

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum