Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Katrín Jakobsdóttir setti ráðstefnu um speglaða kennslu

Rætt um nýjung í kennsluháttum sem þykir athyglisverð.

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra setti ráðstefnu um speglaða kennsluhætti, sem haldin var í Keili.  Spegluð kennsla (flipped classroom, einnig kölluð vendikennsla) hefur rutt sér til rúms, einkum vestan hafs á undanförnum árum og þykir er byltingarkennd og áhugaverð aðferð í skólastarfi. Með heitinu er vísað til þess að hefðbundinni kennslu er snúið við. Fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistuð á netinu á mynd-, hljóð- eða textaformi. Nemendur geta horft og hlustað á kynningarnar eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Þá geta nemendur sent spurningar um efnið til kennara (eða annarra nemenda í hópnum) og fengið svör á netinu sem öllum eru opin. Þá eru nemendur hvattir til að nota netið til að finna heppilegt ítarkennsluefni. Kennslustundir í skóla eru svo notaðir til frekari vinnu með námsefnið, samstarfs nemenda og leiðsagnar kennara eftir þörfum.

Aðalræðumaður ráðstefnunnar, Jonathan Bergmann fjallaði um hugmyndir og aðferðir að baki speglaðri kennslu auk þess að sýna hvernig skólar á öllum skólastigum hafa tekið upp þessa aðferð til menntunar. Þá greindu kennarar og nemendur frá reynslu sinni af speglaðri kennslu. Markmið ráðstefnunnar var að þátttakendur gerðu sér grein fyrir hugmyndum speglaðrar kennslu og hvernig einfaldast sé að innleiða hana í íslenska skóla.

Í lok ávarps síns sagði Katrín Jakobsdóttir m.a.: „Möguleikar upplýsinga- og samskiptatækninnar í námi og kennslu eru ótrúlega margir og þeim mun fjölga á komandi árum eftir því sem tækninni sjálfri vindur fram. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að nota þá kosti eftir megni, sem nýja tæknin veitir okkur. Við eigum líka að feta þessa nýju stigu varlega, reyna að halda því góða sem við höfum verið að gera í skólunum og þróa það áfram með hjálp tölvu- og upplýsingatækninnar í átt að betri kennslu og betra námi – með það að leiðarljósi að gera góðan skóla betri og auka gæði menntunar í þágu allra“.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum