Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Barnamenningarhátíð er hafin

Katrín Jakobsdóttir opnaði sýningu nemenda Ingunnarskóla í Þjóðminjasafni.

Af opnun Barnamenningarhátíðar. Ragnar Th. Sigurðsson tók myndina.
Barnamenningarhátíð 2013

Barnamenningarhátíð í Reykjavík er hafin. Hún er nú haldin í þriðja sinn og stendur fram til 28. apríl 2013. Markmið hátíðarinnar er að efla menningarstarf fyrir og með börnum og ungmennum í borginni, lyfta barna- og unglingamenningunni á stall og gera hana öllum sýnilega. 

Hátíðin hófst á litskrúðugu opnunaratriði í Eldborgarsal Hörpu  þegar 1.300 nemendur í fjórða bekk í grunnskólum Reykjavíkur fluttu saman eldfjörugt og sjónrænt þátttökutónverk eftir tónskáldið Áka Ásgeirsson. Verkið heitir 268° og sækir innblástur sinn í tölvuleikjamenninguna. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Einar Örn Benediktsson formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar settu hátíða ásamt börnunum í salnum.

Þá opnaði Katrín Jakobsdóttir sýninguna „Leitin að Ingunni hinni lærðu“ í Þjóðminjasafninu. Á henni eru listaverk barna í 6. og 7. bekk. Verkin eru innblásin af lífi og störfum Ingunnar Arnórsdóttur sem skólinn er kenndur við. Hún fæddist árið 1100 og var nunna á Hólum á 12. öld og er talin fyrsta lærða konan á Íslandi sem sögur fara af. Ingunn starfaði sem kennari en var jafnframt mikil handavinnukona.

Hjálögð dagskrá Barnamenningarhátíðar er fjölbreytt og mun barna- og unglingamenningin fá að njóta sín í flestum menningarstofnunum borgarinnar. Hátíðin byggir á alls um 100 viðburðum og rúmar allar listgreinar. Hátíðinni lýkur með Stórtónleikum í Laugardalslaug sunnudaginn 28. apríl.

Katrín Jakobsdóttir opnaði sýningu nemenda Ingunnarskóla í Þjóðminjasafni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum