Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Harpa tónlistarhús vinnur European Union Prize for Contemporary Architecture - Miea van der Rohe Award 2013

Í dag var tilkynnt að verðlaun Evrópusambandsins fyrir nútímabyggingarlist, kennd við Mies van der Rohe, fyrir árið 2013 falli í skaut Hörpu.

Harpa
Harpa

Í dag var tilkynnt að verðlaun Evrópusambandsins fyrir nútímabyggingarlist, kennd við Mies van der Rohe, fyrir árið 2013 falli í skaut Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhússins í Reykjavík. Verðlaunin, sem veitt eru annað hvert ár, eru einhver virtustu verðlaun á þessu sviði í heiminum.
Verðlaunin voru sett á stofn árið 1987 af Evrópusambandinu og Stofnun Mies van der Rohe í Barcelona. Þeim er ætlað að vekja athygli á því sem best er gert í evrópskri byggingarlist og koma allar byggingar sem lokið var við á árunum tveimur fyrir afhendinguna til greina. Í ár voru 350 byggingar frá 37 Evrópulöndum tilnefndar til verðlaunanna sem nema alls 60 þúsund evrum.
Níu manna dómnefnd, skipuð virtum sérfræðingum víða að, valdi fimm þessara verka á úrslitalista, en þau voru ráðhúsið í Gent, Belgíu, almenningsgarðurinn Superkilen í Kaupmannahöfn, heimili eldra fólks í Alcacer do Sal, Portúgal, Metropol Parasol garðurinn í Sevilla á Spáni auk Hörpu. Að undanförnu hefur þessi dómnefnd heimsótt alla þessa staði og tekið út verkin. Það var niðurstaða hennar að verðlauna Hörpu, en aðeins ein norræn bygging hefur áður hlotið þessi verðlaun, en það var óperan í Osló.
Í rökstuðningi sínum leggur formaður dómnefndar, Wiel Arets, einkum áherslu á þrennt: þá ákvörðun að ljúka við byggingu Hörpu þrátt fyrir kreppuna, einstaka tengingu byggingarinnar við höfnina og umhverfi Reykjavíkur og merkilega samvinnu við Ólaf Elíasson um glerhjúpinn utan um húsið.
Harpa er verk arkitektastofu Henning Larsen í Danmörku, í samvinnu við Batteríið á Íslandi og Stúdíós Ólafs Elíassonar í Berlín. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Barcelona þann 6. júní næst komandi.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum