Hoppa yfir valmynd
14. maí 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Höfundaréttarbrot á netinu

Hér á landi er hægt að hægt að fá dómsúrskurð um lokun aðgangs að heimasíðum sem eiga hlutdeild í höfundaréttarbrotum.

Vegna umfjöllunar fjölmiðla um breytingar á höfundalögum í Noregi á þann veg að rétthafar geti nú lagt fram beiðni hjá dómstólum um bann við aðgengi að heimasíðum sem augljóslega tengjast umfangsmiklum höfundaréttarbrotum þykir rétt að upplýsa um að eftir lagabreytingar 2009 hefur verið hægt hér á landi að fara fram á lögbann sem kveður á um lokun aðgangs að heimasíðum  sem augljóslega tengjast umfangsmiklum höfundaréttarbrotum.Ef skilyrði eru talin fyrir hendi að leggja á lögbann þarf lögbannsbeiðandi að fara í dómsmál til að staðfesta það. 

Þetta ákvæði, sem er að finna í  59. gr. a í höfundalögum, sbr. lög nr. 93/2010, felur í sér innleiðingu á ákvæði 3. mgr. 8. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu, þar sem mælt er fyrir um skyldu aðildarríkjanna til að sjá til þess að rétthafar séu í aðstöðu til að krefjast lögbanns gegn milliliðum ef þriðji aðili notar þjónustu þeirra til að brjóta gegn höfundarétti eða skyldum rétti.

Tilskipunin fellur undir EES samninginn og því ber EFTA – EES ríkjum að uppfylla þessar skyldur. Það hafa Norðmenn gert nú með því að heimila að hægt sé að leggja fyrir dómstóla beiðni um að loka heimasíðum sem sem augljóslega tengjast umfangsmiklum höfundaréttarbrotum.  Staða rétthafa er því að þessu leyti svipuð hér á landi og í Noregi.

Þessu til viðbótar má benda á að þegar eru fyrir hendi í fjarskiptalögum þær heimildir í þágu rétthafa sem nú hafa verið lögfestar í Noregi. Samkvæmt 3. mgr. 42. gr. fjarskiptalaga ber símafyrirtækjum að afhenda lögreglu og ákæruvaldi upplýsingar um fjarskipti, þ.e. netumferð, án þess að krafist sé dómsúrskurðar. Einnig ber símafyrirtæki að láta lögreglu í té án dómsúrskurðar upplýsingar um hver sé skráður eigandi tiltekinnar IP tölu, sbr. 7. mgr. 47. gr. fjarskiptalaga. Rétthafar sem hafa aflað sér upplýsinga um ætluð höfundaréttarbrot handhafa tiltekinnar IP tölu geta því fengið uppgefið nafn handhafa hennar með dómsúrskurði.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum