Hoppa yfir valmynd
6. júní 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra kynnti sér Feneyjatvíæringinn og sýninguna í íslenska skálanum

Katrín Sigurðardóttir er fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2013.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Paolo Baratta forseti Feneyjatvíæringsins.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Paolo Baratta forseti Feneyjatvíæringsins.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra kynnti sér tvíæringinn í Feneyjum og  verk Katrínar Sigurðardóttur í íslenska skálanum. Þá hitti hann listamanninn að máli og átti fund með Paolo Baratta, sem er forseti Feneyjatvíæringsins.

Verk Katrínar Sigurðardóttur er stór innsetning, sem hún kallar Foundation. Verkið er staðsett við Zenobio höllina í byggingu sem ber heitið Lavanderia og stendur á reit þvottahúss frá fyrri tímum. Listakonan hefur hannað stóran upphækkaðan flöt með skreyttu yfirborði í anda barrokktímabilsins, u.þ.b. 90 fermetra að stærð. Flöturinn dregur útlínur sínar frá grunnmáli dæmigerðs 18. aldar hallarskála. Form hans sker bæði innri og ytri rými þessarar hliðarbyggingar í garði hallarinnar en tveir stigar veita sýningargestum aðgang að verkinu. Verkefnið er afrakstur áralangrar könnunar Katrínar á fjarlægð og minni, og birtingarmyndum þeirra í byggingarlist, borgarrými, kortagerð og landslagi. Verk hennar fela gjarnan í sér smækkaðar eftirgerðir af raunverulegum eða ímynduðum stöðum sem ósjaldan koma áhorfandanum á óvart. Verkið verður í framhaldinu sýnt í Listasafni Reykjavíkur og síðan í SculptureCenter í New York. Þar mun það kallast á við nýtt sýningarrými án þess að grunnmál þess breytist og um leið mun rými fyrri viðkomustaða vera sýnilegt í skurði verksins.

Um Katrínu Sigurðardóttur

Katrín Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 1967. Síðastliðinn aldarfjórðung hefur hún búið og unnið að myndlist sinni á Íslandi og í Bandaríkjunum. Frá fyrstu einkasýningu hennar í San Francisco árið 1992 hafa verk hennar verið sýnd víða um Evrópu, Suður- og Norður-Ameríku og þau er að finna í fjölmörgum einka- og opinberum söfnum.

Meðal einkasýninga Katrínar má nefna sýningar í The Metropolitan Museum of Art, New York (2010); MoMA PS1, New York (2006); FRAC Bourgogne, Dijon í Frakklandi (2006); Sala Siqueiros, Mexíkóborg (2005); Fondazione Sandretto, Torino á Ítalíu (2004) og sýningar í Listasafni Reykjavíkur (2004 og 2000)

Um íslenska skálann

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur umsjón með íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur en þangað fer sýning Katrínar að tvíæringnum loknum. Valið á fulltrúa Íslands að þessu sinni var í höndum nefndar fagmanna sem í sátu Dorothée Kirch forstöðumaður Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, Ólöf Kristín Sigurðardóttir forstöðumaður Hafnarborgar og Hildur Bjarnadóttir, myndlistarmaður. Að auki komu að nefndarstörfum þeir Ragnar Kjartansson myndlistarmaður og Ólafur Gíslason listfræðingur.

 

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Paolo Baratta forseti Feneyjatvíæringsins.Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Paolo Baratta forseti Feneyjatvíæringsins.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum