Hoppa yfir valmynd
10. júní 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Farsæl tenging vísinda og atvinnulífs

Illugi Gunnarson mennta- og menningarmálaráðherra staðfesti samning Háskóla Íslands og Matís ohf. um samstarf um rannsóknir og menntun.

Illugi Gunnarson mennta- og menningarmálaráðherra staðfesti samning Háskóla Íslands og Matís ohf. um samstarf um rannsóknir og menntun.
Illugi Gunnarson mennta- og menningarmálaráðherra staðfesti samning Háskóla Íslands og Matís ohf. um samstarf um rannsóknir og menntun.

Háskóli Íslands og Matís ohf. undirrituðu í morgun samning um samvinnu um fræðilega og verklega menntun á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis og samstarfi á öðrum sviðum kennslu og rannsókna. Í honum felst einnig samstarf um samnýtingu aðfanga, rannsóknainnviða og mannauðs og skapa þannig forsendur til að vera í fararbroddi á þeim fræðasviðum sem tengjast samningnum. Sveinn Margeirsson forstjóri Matís og Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands undirrituðu samninginn ásamt Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra og Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Í forsendum samningsins segir: „Aukin þekking á matvælavinnslu,  öryggi og lýðheilsu næringar er nauðsynleg forsenda nýsköpunar og aukinnar verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu sem er ein af forsendum vaxtar í íslensku samfélagi. Til að styðja við þá þróun og framfylgja stefnu sinni vilja Matís og Háskóli Íslands með samningi þessum, leggja grunn að frekari eflingu fræðilegrar og verklegrar menntunar á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis og samstarfi á öðrum sviðum kennslu og rannsókna. Þetta er mikilvægt skref í formlegu samstarfi Matis og Háskóla Íslands um samnýtingu aðfanga, rannsóknainnviða og mannauðs og skapa með því forsendur til að vera í fararbroddi á þeim fræðasviðum sem tengjast samningi þessum..

Matís er stærsta rannsóknastofnun landsins á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis. Stefna Matís ohf. er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla, líftækni og erfðatækni. Til að framfylgja stefnu sinni er nauðsynlegt að Matís vinni í samstarfi við HÍ að kennslu og þjálfun nemenda.

Háskóli Íslands hefur mótað sér stefnu til ársins 2016, þar sem m.a. er lögð áhersla á doktorsnám, framúrskarandi rannsóknir og kennslu, auk áherslu á samstarf við stofnanir og fyrirtæki eins og Matís ohf. Á vegum HÍ eru stundaðar víðtækar rannsóknir og kennsla á þeim fræðasviðum sem Matís ohf. fæst við, einkum á vettvangi heilbrigðisvísinda- og verkfræði- og náttúruvísindasviða skólans.

Samning þennan gera Matís ohf. og HÍ til að efla enn frekar samstarf sin á milli og tekur þessi samningur við af samningi frá 17. Mars 2010. Verkleg kennsla og leiðbeining meistara- og doktorsnema á fræðasviðum Matís ohf. hefur farið fram á vettvangi Matís eða forvera þess. Þá hafa samningsaðilar keypt og rekið sameiginlega ýmis tæki og búnað til rannsókna á sviði matvælafræði.

Markmið og hlutverk samningsaðila:

  • Efla fræðilega og verklega menntun háskólanema á þeim fræðasviðum sem samningurinn tekur til.
  • Auka rannsóknir á sviði matvælafræði, matvælaverkfræði, líftækni og matvælaöryggis og vera jafnframt í fararbroddi í nýsköpun á þessum fræðasviðum.
  • Vera leiðandi á völdum sérfræðisviðum og hafa faglega sérstöðu í því skyni að laða að nemendur og fræðimenn á alþjóðlegum vettvangi.
  • Tryggja að gæði rannsókna samningsaðila séu sambærileg á við það sem best gerist á alþjóðlegum vettvangi.
  • Nýta möguleika til samreksturs tækja í þágu sameiginlegra verkefna.
  • Fjölga nemendum í grunn- og framhaldsnámi á fræðasviðum samningsins“.

  Illugi Gunnarson mennta- og menningarmálaráðherra staðfesti samning Háskóla Íslands og Matís ohf. um samstarf um rannsóknir og menntun.

Friðrik Friðriksson stjórnarformaður Matís, Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sveinn Margeirsson forstjóri Matís, Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands, Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Inga Þórsdóttir forseti Heilbirgðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum