Hoppa yfir valmynd
12. júní 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Könnun á framkvæmd íþróttakennslu fylgt eftir

Viðbrögð mennta- og menningarmálaráðuneytis við niðurstöðum könnunar á fyrirkomulagi og framkvæmd íþróttakennslu í grunnskólum.

Á síðasta ári lét mennta- og menningarmálaráðuneytið gera könnun á fyrirkomulagi og umfangi íþróttakennslu í grunnskólum. Áður hefur verið gerð grein fyrir helstu niðurstöðum könnunarinnar, sjá nánar hér. Ein af niðurstöðum hennar var að svo virtist sem nemendur nokkurra skóla fengju færri sundtíma en kveðið er á um í aðalnámskrá, að dæmi væru um að fleiri en 15 nemendur væru á ábyrgð hvers kennara í sundtímum og/eða að nemendur fengju innan við 120 mínútur í íþróttum á viku. Ráðuneytið hefur undanfarna mánuði fylgt þessum niðurstöðum eftir og óskað eftir skýringum frá viðkomandi skólum. Ráðuneytið hefur fallist á skýringar flestra skólanna en í nokkrum tilvikum var óskað sérstaklega eftir því við skólastjórnendur og fræðsluyfirvöld viðkomandi sveitarfélags að leitað yrði úrlausna með aðstöðu þannig að unnt væri að uppfylla ákvæði aðalnámskrár grunnskóla.

Ráðuneytið hefur nú lokið formlega eftirfylgni með könnuninni en telur tilefni til að árétta eftirfarandi:

  1. Skv. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, nr. 814/2010, fer um sundkennslu samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla. Um öryggismál á sundstöðum að öðru leyti er fjallað um í fyrrgreindri reglugerð. Hún tekur til allra þeirra sem njóta eða bjóða þá þjónustu sem fram fer á sund- og baðstöðum, sbr. 1. gr. Um öryggi á sundstöðum er fjallað sérstaklega í V. kafla reglugerðarinnar samanber 1. mgr. 11. gr.  Þar segir m.a. að allir starfsmenn skulu upplýstir um öryggisreglur, viðbragðsáætlun og neyðaráætlun sem eiga að vera til staðar á öllum sund- og baðstöðum. Starfsmenn, sundkennarar og sundþjálfarar skulu þjálfaðir a.m.k. einu sinni á ári í notkun viðurkennds skyndihjálparbúnaðar ásamt viðbrögðum við neyðartilvikum.

  2.  Í aðalnámskrá grunnskóla (2011 og 2013), segir að í samræmi við reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum skuli skipulag sundkennslunnar miðast við að 15 nemendur séu að jafnaði í hverjum sundtíma. Til að tryggja öryggi nemenda í kennslustundum og tryggja að markmiðum kennslunnar verði náð skulu nemendur ekki vera fleiri en 15 þegar þeir eru 10 ára og yngri eða ósyndir.  Í skipulagi sundkennslu þarf einnig að taka tillit til þeirrar aðstöðu sem er fyrir hendi, s.s. stærðar laugar og búningsaðstöðu. Ef nemendur eru fleiri en 15 í sundtíma þá gerir ráðuneytið þá kröfu að kennari hafi með sér aðstoðarmann í sundtímanum. Viðkomandi aðstoðarmaður verður að hafa tekið hæfnipróf sundstaða eins og reglugerð nr. 814/2010 gerir kröfur um.
  3. Í reglugerðinni er jafnframt fjallað um öryggi í skólasundi. Samkvæmt henni skal íþróttakennari í samvinnu við starfsmenn sundstaða fara árlega, eða við upphaf hvers sundnámskeiðs, yfir helstu reglur sem gilda á sundstöðum og yfirfara vinnutilhögun í tengslum við sundkennslu þannig að fyllsta öryggis nemenda sé gætt. Íþróttakennari skal einnig gera nemendum grein fyrir þeim hættum sem geta fylgt sundiðkun.
  4. Í reglugerð nr.773/2012 um breytingu á reglugerð 814/2010 kemur m.a. fram  „Þar sem hópar barna undir 10 ára aldri eru saman komnir skulu ekki fleiri en 15 börn vera í umsjá hvers kennara eða ábyrgðarmanns hóps sem, ásamt laugarverði, er ábyrgur fyrir hópnum. Miða skal við að þeir sem starfa með eða hafa umsjón með börnum og ungmennum í æskulýðsstarfi séu lögráða og hafi þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til starfsins, sbr. 1. mgr. 10. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007. Til að auðvelda kennara eða ábyrgðarmanni hópa að fylgjast með hverju barni skulu hópar barna sérstaklega auðkenndir með áberandi lit á sundhettum, armböndum, vestum eða á annan sambærilegan hátt. Fyllsta öryggis skal gætt þegar komið er með hóp af börnum og unglingum í sund. Kennarar og ábyrgðarmenn hópa skulu kynna sér reglur sund- og baðstaða og aðstoða starfsfólk sund- og baðstaða við gæslu.

    Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu ávallt gæta þess í samvinnu við starfsfólk sund- og baðstaða að nemendur fari ekki að laug á undan þeim. Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu aldrei víkja frá laug fyrr en allir nemendur/iðkendur yngri en 15 ára eru farnir inn í búnings- eða baðklefa. Þau varúðaratriði sem hvíla á laugarverði hvíla einnig á kennara, þjálfara og leiðbeinanda varðandi nemendur og iðkendur.“
  5. Skv. aðalnámskrá grunnskóla frá 2013 í skólaíþróttum (bls. 181-193) er í skólasundi miðað við að nemendur fái a.m.k. 40 mínútur á stundaskrá skóla í hverri viku skólaársins. Þar sem slíku skipulagi verður ekki við komið skal kenna skólasund á árlegum námskeiðum. Á slíkum námskeiðum skal hver nemandi fá að lágmarki 800 mínútur í kennslu. Sá tími, sem eftir stendur, skal nýta til skólaíþrótta (miðað er við 40 mín. kennslustundir).

    Skv. viðmiðunarstundaskrá aðalnámskrár grunnskóla, er gert ráð fyrir að heildartími skólaíþrótta í 1.- 4. bekk sé 480 mínútur í viku hverri, í 5.-7. bekk sé hann 360 mínútur og í 8.-10. bekk 360 mínútur (að meðaltali 120 mínútur í hverri viku skólaársins frá 1. - 10. bekkjar).
    Í dreifibréfi til skóla áréttaði ráðuneytið að það væntir þess að þeir kynni sér vel ákvæði í lögum, reglugerðum og aðalnámskrá um skólaíþróttir og sjái til þess að nemendur fái lögbundna kennslu og að fyllsta öryggis sé gætt.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum