Hoppa yfir valmynd
20. júní 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vitundarvakningin nær nú einnig til líkamlegs og andlegs ofbeldis

Ný verkefnisstjórn Vitundarvakningar um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum hefur störf í samræmi við útvíkkað hlutverk sitt

Ný verkefnisstjórn Vitundarvakningar um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum hefur hafið störf í samræmi við útvíkkað hlutverk sitt sem nær nú einnig til líkamlegs og andlegs ofbeldis. Í verkefnisstjórn sitja Jóna Pálsdóttir formaður, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Þorbjörg Benediktsdóttir, tilnefnd af velferðarráðuneyti og María Rún Bjarnadóttir, tilnefnd af innanríkisráðuneyti. Kristín Jónsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri.

Vitundarvakningin var stofnuð á síðastliðnu ári í kjölfar þess að Ísland gerðist aðili að samningi Evrópuráðsins, svo kölluðum Lanzarote samningi, um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misneytingu barna.

Í samræmi við ákvæði samningsins hefur Vitundarvakningin unnið að vakningu um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Í undirbúningi er framtíðarfyrirkomulag fræðslu og forvarna í málaflokknum í góðu samráði við viðeigandi aðila.

Þeim verkefnum sem þegar hefur verið ýtt úr vör verður fram haldið. Gerður hefur verið áframhaldandi samningur við brúðuleikhúsið Krakkarnir í hverfinu um sýningar í öðrum bekk grunnskóla landsins til ársins 2014. Jafnframt hefur verkefnisstjórnin undirritað samkomulag um styrk til Rannsóknastofu í barna- og æskulýðsfræðum á menntavísindasviði HÍ, til rannsókna og eftirfylgni vegna þessara leiksýninga um þetta viðkvæma málefni.

Kvikmyndin „Fáðu já“  hefur fengið ítarlega umfjöllun og er aðgengileg öllum á vef Vitundarvakningar og www.faduja.is. Myndin er til með textum á sjö tungumálum. Að auki hafa verið gerðar kennsluleiðbeiningar fyrir myndina.

Undirritað hefur verið samkomulag við Rannsóknarstofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni, um gerð fræðsluefnis fyrir réttarvörslukerfið um meðferð kynferðisbrota gegn börnum.

Póstkort, sem minnir á tilkynningaskyldu til barnaverndaryfirvalda, hefur verið sent til allra heimila í landinu.

Þá stendur til að fylgja eftir fræðsluþingum sem haldin voru í öllum landshlutum í október 2012 fyrir stjórnendur, kennara og annað starfsfólk grunnskóla í samvinnu við fjölmarga aðila.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum