Hoppa yfir valmynd
27. júní 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Staða menntamála árið 2011

Efnahags og framfarastofnunin OECD gefur árlega út skýrsluna  „Education at a Glance“ um stöðu menntamála í aðildarríkjum sínum.

Íslenskur vinnumarkaður einkennist af gjá milli vinnuafls með litla menntun og  hámenntaðs vinnuafls samkvæmt skýrslu OECD. Um 71% af fólki á aldrinum 25 – 64 ára hefur lokið framhaldsskólaprófi og meðal fólks á aldursbilinu 25 – 34 ára er hlutfallið 75%. Sambærilegar meðaltalstölur fyrir OECD eru 75% og 82%. Þegar litið er til menntunarstöðu fólks á aldrinum 25 – 64 ára þá er hlutfall þeirra sem lokið hafa framhaldsskólaprófi frekar lágt í samanburði við önnur OECD ríki. Hlutfall háskólamenntaðra hefur hækkað jafnt og þétt en 34% höfðu lokið háskólaprófi miðað við 32% að meðaltali innan OECD. Hlutfall þeirra sem hafa ekki lokið framhaldsskóla heldur áfram að lækka og er komið niður í 29% en meðaltal OECD er 25%. Sú gjá á íslenskum vinnumarkaði sem OECD bendir á felst í því að tiltölulega stór hluti fólks á vinnumarkaði er með háskólamenntun en einnig er stór hópur sem ekki hefur lokið formlegri menntun eftir grunnskóla. 

Miðað við tölur um brautskráningar árið 2011 má búast við að 70% ungs fólks ljúki framhaldsskólaprófi við 25 ára aldur eða yngra. Aftur á móti ljúka 20% ekki fyrr en eftir 25 ára aldur sem er hátt hlutfall miðað við önnur ríki innan OECD. Af þeim sem ljúka framhaldsskólaprófi fyrir 30 ára aldur héldu 71% áfram námi árið 2011, 22% voru með atvinnu og 7% atvinnulausir. Sambærilegar tölur fyrir OECD voru 68%, 17% og 16%.  

Ef litið er til stöðu ungs fólks undir 30 ára aldri þá voru aðeins 8% ekki í skóla eða með atvinnu árið 2011 sem er umtalsvert lægra en meðaltalshlutfall OECD ríkjanna, sem var 15%. Hlutfallið meðal kvenna hér á landi var 6% sem var það lægsta meðal OECD ríkjanna. Á hinn bóginn hafði hlutfallið hækkað um 4 prósentustig hér á landi frá 2008 eins og í öðrum OECD ríkjum vegna áhrifa fjármálakreppunnar.

Hlutfall háskólamenntaðra Íslendinga hefur hækkað umtalsvert frá aldamótum. Á sama tíma hefur munur milli kynjanna breikkað. Árið 2000 höfðu 23% karla og 25% kvenna á aldrinum 25 – 64 ára lokið háskólaprófi. Árið 2011 var hlutfallið meðal kvenna komið upp í 40% en hlutfall karla var 28%. Meðal OECD ríkjanna var hlutfallið fyrir konur 33% og fyrir karla 30%. Margir stunda háskólanám eftir 30 ára aldur á Íslandi og miðað við núverandi þróun brautskráninga má búast við að ein af hverjum þremur konum muni ljúka háskólanámi eftir 30 ára aldur samanborið við eina af hverjum tíu að meðaltali innan OECD.

Útgjöld til menntamála hér á landi hafa yfirleitt verið talin há þegar litið er til þeirra sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF). Árið 2010 voru útgjöldin 7,7% af VLF en voru 7,9% árið 2008. Meðal OECD ríkjanna var hlutfallið hæst í Danmörku og Íslandi kom þar næst á eftir. OECD reiknast til að á Íslandi hafi orðið 12 prósentustiga samdráttur á heildarútgjöldum hins opinbera til menntamála á árunum 2008 og 2010. Meðal OECD ríkjanna var að meðaltali 5 prósentustiga aukning á opinberum útgjöldum til menntamála á tímabilinu, m.a. vegna þess að verg landsframleiðsla innan OECD dróst saman.

Þegar litið er til þess hvernig heildarútgjöld til menntamála dreifast á hvern nemanda þá blasir önnur mynd við. Árið 2010 voru útgjöld á Íslandi á hvern nemanda óháð skólastigi undir meðaltali OECD ríkja. Útgjöldin dreifðust misjafnlega eftir skólastigum. Þannig voru útgjöld á hvern nemanda á leik- og grunnskólastigi vel yfir meðaltali OECD árið 2010 en útgjöld til framhalds- og  háskólanema talsvert lægri. Ef tekið er mið af heildarútgjöldum til menntamála hér á landi árið 2005 höfðu útgjöld á hvern nemanda dregist saman um 9% árið 2010 á föstu verðlagi. Meðaltalshækkun útgjalda innan OECD var 17% og aðeins á Ítalíu, Ungverjalandi og Íslandi höfðu útgjöld á hvern nemanda dregist saman á þessu tímabili. Samdrátturinn á útgjöldum á hvern nemanda á háskólastigi var enn meiri á Íslandi eða 14% milli áranna 2005 og 2010 á föstu verðlagi ársins 2005, á meðan að meðaltalsútgjöld innan OECD hækkuðu um 8%. Að einhverju leyti skýrist þessi samdráttur á fjölgun háskólanema á sama tímabili en milli áranna 2005 og 2010 varð 17% fjölgun háskólanema.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum