Hoppa yfir valmynd
27. júní 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Hækkað menntunarstig á Norðvesturlandi

Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Háskólinn á Bifröst hafa undirritað samning um sérstakt tilraunaverkefni sem á að leiða til hækkunar á menntunarstigi í Norðvesturkjördæmi.

Meginmarkmið verkefnisins er að kanna þörf fyrir menntun meðal einstaklinga og fyrirtækja í Norðvesturkjördæmi, stuðla að auknu samstarfi fræðsluaðila, kanna þörf fyrir námsstyrki og þróa aðferðir við mat á fyrra námi og reynslu inn í hið hefðbundna skólakerfi.

Verkefnið er liður í átaki til þess að hækka menntunarstig í íslensku atvinnulífi og eitt þeirra verkefna, sem sett voru af stað í framhaldi af kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins  í maí 2011. Sérstök verkefnisstjórn var sett yfir þetta tilraunaverkefni og formaður hennar er Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst.  Í verkefnisstjórninni sitja fulltrúar atvinnulífs, stéttarfélaga, sveitarfélaga og skóla- og fræðslustofnana í Norðvesturkjördæmi. Háskólinn á Bifröst hefur umsjón með verkefninu.

Meginmarkmið verkefnisins er að:

  •  Kanna þörf meðal einstaklinga á vinnumarkaði í Norðvesturkjördæmi fyrir menntun og gera tillögur að nýjum námsúrræðum ef þörf reynist.
  • Stuðla að auknu samstarfi framhaldsfræðsluaðila, framhaldsskóla og háskóla á svæðinu  um menntun á vinnumarkaði.
  • Þróa og gera tilraunir með aðferðir sem auðvelda mat á fyrra námi og reynslu inn í hið hefðbundna skólakerfi og gera tillögu um framtíðarskipan þeirra mála.
  • Kanna þörf fyrir námsstyrki, þróa og prófa útfærslur á slíku kerfi í framhaldi af þeirri tilraun sem gerð var í átakinu Nám er vinnandi vegur (NVV).
  • Meta kostnað við einstök verkefni og verkefnaþætti.

Í júní til ágúst á yfirstandandi ári verða gerðar viðamiklar kannanir á þörf og eftirspurn eftir námi hjá fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum.  Annars vegar eru gerðar hefðbundnar formlegar kannanir og hins vegar er leitað beint til stjórnenda og starfsfólks fyrirtækja og stofnana í kjördæminu.  Á vegum verkefnisins hefur verið ráðið fólk til þess að sjá um framkvæmdina, taka viðtöl og vinna úr þeim.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum