Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Heimsókn í Þjóðskjalasafnið

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra kynnti sér starfsemi Þjóðskjalasafns Íslands sl. föstudag. Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður og starfsmenn safnsins tóku á móti ráðherra og kynntu honum starfsemina, farið var yfir helstu verkefni, sem standa fyrir dyrum og áform um frekari framkvæmdir við húsnæði safnsins.

Radherra-heimsaekir-thjodskjalasafn
Radherra-heimsaekir-thjodskjalasafn

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra kynnti sér starfsemi Þjóðskjalasafns Íslands sl. föstudag. Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður og starfsmenn safnsins tóku á móti ráðherra og kynntu honum starfsemina, farið var yfir helstu verkefni, sem standa fyrir dyrum og áform um frekari framkvæmdir við húsnæði safnsins. Að því loknu voru húsakynni safnsins skoðuð og ráðherra voru sýndir helstu dýrgripir sem það varðveittir.

Þjóðskjalasafnið hefur þá sérstöðu að vera í senn stjórnsýslustofnun og safn. Í stjórnsýsluhlutverkinu felst einkum að hafa eftirlit með afhendingarskyldum aðilum ríkisins, sem eru  yfir 400 talsins, héraðsskjalasöfnum og sveitarfélögum, sem ekki hafa héraðsskjalasafn. Varsla opinberra skjala varðar réttindi borgaranna auk þess að þau eru mikilvæg fyrir stjórnsýsluna í landinu og eru heimildir um sögu þjóðarinnar.

Í Þjóðskjalasafninu eru nú um 41 hillu-kílómetri af skjölum og gert er ráð fyrir að á næstu 30 árum bætist við um 50 kílómetrar. Umfangsmikil skil banka, þrotabúa o.fl. aðila eru í vændum auk þess sem gríðarlegt skjalamagn fylgir störfum rannsóknanefnda á vegum Alþingis. Á síðast liðnum þremur árum hafa skjöl, sem fylla um 5,5 kílómetra af hillum, borist til safnsins.

Í könnun á skjalavörslu í ríkisstofnunum, sem gerð var í fyrra, kom í ljós að talsvert er um að skjölum sé eytt án heimildar, upplýsingar um mál eru ekki skráð í öllum tilvikum og rafræn gögn eru ekki í skipulögðum kerfum hjá u.þ.b. 40% stofnana ríkisins. Þá kom í ljós að 76% stofnana vinna ekki eftir skjalavistunaráætlunum og skjalaverðir eru einungis í um 42% stofnana. Þjóðskjalasafn gerir ráð fyrir að ástandið geti batnað með aukinni notkun rafrænna kerfa í skjalavörslu og fjölgun skjalavarða. Þá hefur safnið beitt sér fyrir aukinni fræðslu og eftirliti til að koma þessum málum í betra horf.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum