Hoppa yfir valmynd
11. september 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

ESA samþykkir reglur um fjármögnun Ríkisútvarpsins

Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að íslensk yfirvöld breyttu lögum og regluverki RÚV í samræmi við tilmæli ESA.

Eftirlitsstofnun EFTA

(ESA) hefur ákveðið að loka máli um fjármögnun Ríkisútvarpsins  í kjölfar nýrra laga um Ríkisútvarpið, nr. 23/2013, þar sem tekið var tillit til tilmæla ESA í þessu efni. Í fréttatilkynningu frá ESA segir:

„Í dag tók Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvörðun um að loka máli varðandi fjármögnun Ríkisútvarpsins (RÚV). Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að íslensk yfirvöld breyttu lögum og regluverki RÚV í samræmi við tilmæli ESA.

Árið 2011 fór ESA formlega fram á að íslensk yfirvöld breyttu fyrirkomulagi á fjármögnun RÚV. Markmið breytinganna var að stuðla að frekara gagnsæi varðandi opinber fjárframlög til Ríkisútvarpsins og að draga úr hættu á samkeppnisröskun á þeim markaði þar sem Ríkisútvarpið starfar. Í raun fól þetta í sér að fyrirkomulagi fjármögnunar yrði breytt til samræmis við leiðbeinandi reglur ESA varðandi ríkisstyrki til aðila sem sjá um útsendingar í almannaþágu, sem samþykktar voru í byrjun árs 2010. Íslensk yfirvöld féllust á tilmæli ESA og hétu því að verða við athugasemdum stofnunarinnar.

Í kjölfar ákvörðunar ESA var lögum og reglum um starfsemi RÚV breytt til samræmis við athugasemdir ESA. Nýju reglurnar fela meðal annars í sér eftirfarandi:

  • RÚV þarf nú að óska eftir heimild mennta- og menningarmálaráðherra fyrir nýrri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Jafnframt skal RÚV óska eftir mati fjölmiðlanefndar á nýrri fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og ítarlegur rökstuðningur og fjárhagsáætlun þurfa að liggja fyrir. Hagsmunaaðilar og almenningur munu auk þess eiga kost á því að koma athugasemdum sínum á framfæri við fjölmiðlanefnd og hafa til þess þriggja vikna frest.
  • Settar hafa verið skýrar viðmiðunarreglur um greiðslur fyrir þjónustu sem RÚV veitir vegna opinberrar þjónustuskyldu sinnar.
  • Íslensk yfirvöld hafa sett skýrar reglur um meðferð hugsanlegrar ofgreiðslu til RÚV í samræmi við leiðbeinandi reglur ESA.
  • RÚV er skuldbundið til að stofna og reka dótturfélög, sem koma munu til með að annast hvers konar starfsemi sem telst viðskiptalegs eðlis. Með þessu fyrirkomulagi er gengið úr skugga um að slík starfsemi sé rekin á grundvelli markaðslögmála.

Þar að auki hafa íslensk yfirvöld ábyrgst að nýtt regluverk RÚV samrýmist að öllu leyti leiðbeinandi reglum ESA um ríkisábyrgðir.

Með hliðsjón af öllu ofangreindu hefur ESA ákveðið að loka málinu“.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum