Hoppa yfir valmynd
13. september 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Viðmið um gerð námskráa í framhaldsfræðslu

Ráðuneytið hefur birt viðmið um gerð námskráa í framhaldsfræðslu.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur birt viðmið um gerð námskráa í framhaldsfræðslu en þær lýsa námstilboði sem samanstendur af einum eða fleiri námsþáttum og felur í sér að lágmarki 40 klukkustunda vinnu námsmanns, í og utan kennslustunda. Viðmiðin nýtast fræðsluaðilum við námskrárgerð og eru höfð til hliðsjónar af ráðuneyti við staðfestingu þeirra.
Ráðuneytið vottar/staðfestir námskrár á grundvelli 6. gr. laga um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 og 8.-10. gr. reglugerðar um framhaldsfræðslu nr. 1163/2011. Markmið með vottuninni eru að stuðla að aukinni viðurkenningu náms sem fer fram utan formlega skólakerfisins og tryggja gæði og gegnsæi námstilboða viðurkenndra fræðsluaðila í framhaldsfræðslu. Með vottun er staðfest að námið uppfylli kröfur um skipulag, framsetningu viðmiða og námsmat. Í vottuninni felst jafnframt að viðkomandi nám hefur verið tengt við hæfniþrep í hæfniramma um íslenskt menntakerfi.
Fræðsluaðilar í framhaldsfræðslu, sem hafa viðurkenningu sem slíkir á grundvelli laga um framhaldsfræðslu eða aðrir fagaðilar sem ráðuneyti telur hæfa, geta sótt um vottun námskráa. Námskrár og námsþættir eru skráðir af fræðsluaðila í námskrárgrunn ráðuneytisins og úr þeim grunni sendir fræðsluaðili formlega umsókn um vottun.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum