Hoppa yfir valmynd
23. október 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Úttekt á framkvæmd menningarsamninga árin 2011 - 2013

Þátttakendur sammála um að menningarsamningarnir hafi stuðlað að fjölbreytni og nýsköpun í menningarstarfi.

Capacent ehf. gerði að ósk mennta- og menningarmálaráðuneytisins úttekt á framkvæmd þeirra sjö menningarsamninga, sem gerðir voru fyrir tímabilið 2011-2013, milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis annars vegar og landshlutasamtaka sveitarfélaga hins vegar. Svæðin sjö eru: Vesturland, Vestfirðir, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland, Suðurland og Suðurnes.

Meginmarkmið úttektarinnar var að komast að raun um hvort að menningarsamingar hafi:

  • Stuðlað að því að efla samstarf á sviði menningarmála á svæðinu.
  • Stuðlað að nýsköpun og fjölbreytni í menningu og menningartengdri ferðaþjónustu.
  • Stuðlað að fjölgun atvinnutækifæra á sviði menningar og lista.
  • Leitt til þess að menningarstarfsemi styðji við ferðaþjónustu.
  • Leitt til þess að samingsaðilar, ríki og sveitarfélög, hafi varið meira fé en áður til menningarmála á hverju svæði sem samningur nær til.

Ennfremur var lagt mat á hvort verklag og vinnubrögð menningarráðanna væru í samræmi við menningarsamninga, hvort úthlutun fjármagns til verkefna væri í samræmi við markmið samninga og fyrirliggjandi úthlutunarreglur og hvort skipan menningarráða væri í samræmi við ákvæði samningsins. Sérstök áhersla var lögð á að leggja mat á áhrif og skilvirkni við framkvæmd ákvæða menningarsamninganna til að samningsaðilar gætu metið að hve miklu leyti þeim markmiðum, sem að var stefnt, hafi verið náð bæði faglega og fjárhagslega.

Niðurstöður

Það er mat úttektaraðila að víðtæk sátt sé á milli samningsaðila um framkvæmd samninganna og að það sé farsælt að stýra styrkveitingum ríkis og sveitarfélaga til menningarstarfs í einn farveg. Þá telja þeir að úthlutun fjármagns heima í hérað á grundvelli stefnumörkunar og úthlutunarreglna auki fagmennsku og byggi þannig undir sátt um ráðstöfun fjármuna. Það er mat úttektaraðila að árangur af framkvæmdinni sé umtalsverður og ekki verði annað séð af þeim gögnum, sem aflað var, en að fyrirkomulag stjórnunar og úthlutun fjármagns sé í samræmi við ákvæði samninganna og úthlutunarreglur á hverju svæði fyrir sig.

Með vísan til framangreindra markmiða telja úttektaraðilar að menningarsamningarnir hafi stuðlað að auknu samstarfi á sviði menningarmála á svæðunum sjö, þ.e. innan hvers svæðis. Til framtíðar litið væri æskilegt að vinna að auknu samstarfi milli svæða. Samstarf Austurlands og Norðurlands eystra er nefnt sem dæmi um góðan árangur á því sviði. Stuðlað hefur verið að aukinni nýsköpun og fjölbreytni í menningu og menningartengdri ferðaþjónustu. Á hverju svæði eru dæmi um verkefni, sem ekki hefði verið mögulegt að framkvæma nema með þeim stuðningi, sem fékkst fyrir tilstuðlan menningarsamninganna.

Ekki liggja fyrir tölur um beina atvinnusköpun en þar sem samtals einum milljarði króna hefur verið ráðstafað til svæðanna á tímabilinu telja úttektaraðilar að heildaráhrif samninganna sé ekki undir tveimur milljörðum króna þannig að umfangið í efnahagslífinu er talsvert. Þá hafa samningarnir leitt til menningarstarfsemi sem styður við ferðaþjónustuna á hverju svæði fyrir sig. Samningarnir hafa hins vegar ekki leitt til þess að samningsaðilar, ríki og sveitarfélög, hafi varið meira fé en áður til menningarmála á hverju svæði sem samningur nær til. Þetta er því eina ákvæði samninganna sem ekki hefur gengið að fullu eftir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum