Hoppa yfir valmynd
25. október 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Sameining Námsmats- og Námsgagnastofnunar

Kynning á undirbúningi að sameiningu Námsmats- og Námsgagnastofnunar í eina sterka faglega stofnun á sviði menntamála, einkum fyrir grunn- og framhaldsskólastigið.

Fyrirhuguð sameining Námsmats- og Námsgagnastofnunar í eina sterka faglega stofnun á sviði menntamála, einkum að því er varðar grunn- og framhaldsskólastigið, hefur verið kynnt starfsfólki stofnananna. Ekki hefur verið ákveðið hvenær hin nýja stofnun verður formlega sett á laggirnar en á fundi með starfsfólki stofnananna sagði Ásta Magnúsdóttir ráðuneytisstjóri að „aðaláherslan verður ekki á hraða heldur á fagleg og vönduð vinnubrögð“.

Fýsileikakönnun, sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gerði, bendir til þess að faglegur ávinningur af sameiningu stofnananna sé umtalsverður. Hann felst einkum í því að styrkja tengslin milli námsskráa, námsefnis, námsmats og gæðamats fyrir skólana og framkvæmd.  Auk þess eru „viðskiptavinir“ þessara tveggja stofnana að miklu leyti þeir sömu, þ.e. skólarnir.

Markmið sameiningarinnar er að ná heildstæðri nálgun á starfsemi skólanna á landinu og umbætur í starfi þeirra. Nú er þessu þannig fyrir komið að ráðuneytið gefur út námsskrár, Námsgagnastofnun gefur út námsefnið en námsmat, tölfræðilegar greiningar og gæðamat á skólum er framkvæmt af Námsmatsstofnun að hluta. Með því að færa þessa starfsemi á einn stað er stefnt að því að fá heildstæðari grunn til stefnumótunar og betra svigrúm til að bregðast við ef vart verður veikleika í kerfinu. 

Nýja stofnunin mun ekki aðeins taka til grunnskólastigsins, heldur munu ýmis verkefni, sem tengjast innra starfi framhaldsskólanna, flytjast til hennar. Námsmatsstofnun sér núna um  innritun í framhaldsskóla en ætlunin er að fleiri verkefni flytjist til hennar, hugsanlega áður en af sameiningu verður.

„Sameining Námsgagnastofnunar og Námsmatsstofnunar hefur það markmið að byggja upp góða lykilstofnun í menntamálun; við lítum á nýja stofnun sem spennandi tækifæri til að samræma og samhæfa aðgerðir til að ná betri árangri á grunn- og framhaldsskólastigi“ segir Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum