Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Brotthvarf úr framhaldsskólum, ný skýrsla

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur beitt sér fyrir aðgerðum til að draga úr brotthvarfi í framhaldsskólum og er samræmd skráning á brotthvarfi hluti af þeim aðgerðum.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur beitt sér fyrir aðgerðum til að draga úr brotthvarfi í framhaldsskólum og er samræmd skráning á brotthvarfi hluti af þeim aðgerðum. Í samráði við skólameistara allra framhaldsskóla var ákveðið að afla upplýsinga um ástæður fyrir brotthvarfi þeirra nemenda sem hættu námi á vorönn 2013 og var þetta í fyrsta sinn hér á landi sem kallað var kerfisbundið eftir ástæðum brotthvarfs frá nemendunum. Óskað var eftir upplýsingum um aldur og kyn þeirra sem hættu námi auk þess að skráð var ein aðalástæða hjá hverjum nemanda fyrir brotthvarfi og var það lagt í hendur náms- og starfsráðgjafa skólanna að meta hver væri meginástæða fyrir brotthvarfi hvers og eins.

Helstu niðurstöður

Samkvæmt upplýsingum frá 28 skólum af 31 kom fram að 1002 nemendur hefðu hætt námi á vorönn 2013, þ.e. hurfu frá námi án þess að ljúka prófum í lok annarinnar. Af þeim fóru 117 nemendur í annan skóla og má því segja að 885 nemendur teljist eiginlegir brotthvarfsnemendur á vorönn 2013. Ekki var marktækur munur á milli kynja hvað varðar heildarfjölda þeirra sem hættu í námi.

Á framhaldsskólastigi stunduðu 25.460 nemendur nám á haustönn 2012 og gera má ráð fyrir að svipaður fjöldi hafi stundað nám á vorönn 2013.

Karl

Kona

Alls

Fór að vinna 69 43 112
Flutningar 10 11 21
Fjárhagsaðstæður 17 13 30
ADHD, námsörðugleikar 1 2 3
Lesblinda,  námsörðugleikar 2 3 5
Annað,  námsörðugleikar 7 13 20
Hafði ekki áhuga á náminu 26 17 43
Nám of erfitt 5 4 9
Samskiptaörðugleikar við starfsfólk skóla 0 1 1
Féll á mætingu 140 111 251
Vísað úr skóla/brot á skólareglum 40 21 61
Veikindi barna 0 2 2
Þungun/erfið meðganga 0 7 7
Fór í annan skóla 46 71 117
Líkamleg veikindi 24 39 63
Persónulegar ástæður 22 32 54
Náði ekki að mynda tengsl/vanlíðan í skóla 3 4 7
Neysla/meðferð 9 4 13
Þunglyndi, andleg veikindi 20 25 45
Kvíði, andleg veikindi 12 17 29
Félagsfælni, andleg veikindi 1 3 4
Annað, andleg veikindi 12 16 28
Annað 41 36 77
Alls 507 495 1002

 Sá hópur, sem hætti eða var vísað úr skóla var vegna slakrar mætingar, er lang stærstur eða 251 og þar af voru 183 nemendur í einungis þremur skólum. Rétt er að hafa í huga að reglur um skólasókn geta verið misjafnar eftir skólum og skólarnir taka við misjöfnum hópi nemenda. Þó er ljóst, samkvæmt niðurstöðum skráninga, að greina þarf betur hvað liggur að baki slakri mætingu svo hægt sé að minnka brotthvarf hjá þessum hópi.

Frekari aðgerðir gegn brotthvarfi

1. Ástæður nemenda fyrir brotthvarfi

Ráðuneytið hefur ákveðið að halda áfram að kalla kerfisbundið eftir ástæðum brotthvarfs frá nemendunum og stuðla þannig að aukinni þekkingu á viðfangsefninu. Vitneskja um ástæður brotthvarfs nemenda er talin geta auðveldað skólum að takast á við og minnka brotthvarf, sem víða er mikið í framhaldsskólum hér á landi. Samkvæmt gögnum OECD, frá árinu 2011, lýkur innan við helmingur nemenda (um 45%), sem innritast í framhaldsskóla hér á landi í fyrsta sinn, einhverri prófgráðu á fjórum árum eða minna. Í samanburði við Noreg er brautskráningahlutfallið eftir venjulegan námstíma í framhaldsskóla þar 57% og 61% í Danmörku.

2. Skimunarpróf

Í þremur framhaldsskólum var skimað fyrir nemendum í brotthvarfshættu með sérstöku skimunarprófi , sem Kristjana Stella Blöndal lektor við Háskóla Íslands hannaði. Það var lagt fyrir nýnema úr grunnskólum, sem innrituðust í skólana haustið 2012. Þeir nemendur, sem greindust í mestri brotthvarfshættu, voru boðaðir í viðtal til náms- og starfsráðgjafa skólanna þar sem unnið var á persónulegum grundvelli með hverjum og einum. Fulltrúar skólanna hafa lýst yfir ánægju sinni með verkefnið og töldu að skimun af þessu tagi væri fyrirbyggjandi og gæti minnkað líkur á brotthvarfi. Skimunarprófið var síðan lagt fyrir nýnema, fædda árið 1997, í 17 framhaldsskólum haustið 2013 og er áætlað er að niðurstöður og mat á verkefninu verði kynnt framhaldsskólunum vorið 2014.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum