Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Reglur um aðfaranám að háskólanámi

Aðfaranám er ætlað þeim nemendum sem hyggja á háskólanám en fullnægja ekki inntökuskilyrðum um stúdentspróf.

Reglur um aðfaranám á háskólastigi hafa verið gefnar út. Aðfaranám er ætlað þeim nemendum sem hyggja á háskólanám en fullnægja ekki inntökuskilyrðum um stúdentspróf. Það er einnig ætlað þeim nemendum sem lokið hafa námi á framhaldsskólastigi en þurfa að bæta við sig þekkingu áður en til náms á háskólastigi kemur.

Aðfaranám er ætlað nemendum 25 ára og eldri. Undanþága frá reglu um aldur er einungis veitt ef nemandi hefur áður lokið prófi á framhaldsskólastigi, svo sem iðnnámi eða stúdentsprófi, og þarf að bæta við sig þekkingu áður en hann hefur nám á háskólastigi. Til þess að hefja aðfaranám þarf nemandi að hafa lokið að minnsta kosti 140 framhaldsskólaeiningum. Hluti þeirra eininga geta verið metnar til raunfærni.

Aðfaranám skal skipulagt þannig að nemandi í fullu námi skuli að jafnaði ljúka því á tveimur önnum en veitt er undanþága frá því ef nemandi hefur áður lokið prófi í iðngrein. Námið skal skipulagt sem 60 framhaldsskólaeiningar til viðbótar fyrra námi. Aðfaranámið ásamt fyrra námi skal mynda 200 eininga heild sem lýtur kröfum um kjarnagreinar til stúdentsprófs. Það skal byggt á hæfniþrepum sem lýst er í aðalnámskrá framhaldsskóla auk aðgangsviðmiða viðkomandi háskóla.

Tilgangur með setningu reglna um aðfararnám er að bæta lagaumgjörð um námið og skýra inntak og uppbyggingu þess. Þá er þeim ætlað að standa vörð um réttindi nemenda þannig að þeim sé ljóst hvað felst í aðfararnámi og hvaða réttindi slíkt próf veitir, sbr. 5. mgr. 1. gr. reglnanna: "Aðfaranám miðar að því að undirbúa nemendur undir háskólanám á Íslandi en tryggir ekki sjálfkrafa aðgang að öllu námi á háskólastigi við íslenska háskóla. Einstakir háskólar eða háskóladeildir geta sett sérstök inntökuskilyrði á tilteknar námsbrautir. Skóli sem býður upp á aðfaranám skal upplýsa nemendur sem stefna á inngöngu í háskóla um þennan rétt einstakra háskóla og háskóladeilda."

Aðfararnám hefur verið lengi stundað á Íslandi (var áður nefnt frumgreinanám) en Tækniskóli Íslands fór að bjóða upp á slíkt nám árið 1964. Það var að danskri fyrirmynd og var upphaflega hugsað fyrir iðnskólagengna nemendur sem hugðu á nám við skólann en skorti kennslu í undirstöðuatriðum tæknifræðináms, s.s. stærðfræði og eðlisfræði.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum