Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Stattu með þér

Samningur um gerð stuttmyndar fyrir miðstig grunnskóla í anda myndarinnar Fáðu já, sem frumsýnd var fyrir ári í öllum grunnskólum landsins og flestum framhaldsskólum, var undirritaður 30. janúar 2014.
Stattu með þér
Stattu með þér

Samningur um gerð stuttmyndar fyrir miðstig grunnskóla í anda myndarinnar Fáðu já, sem frumsýnd var fyrir ári í öllum grunnskólum landsins og flestum framhaldsskólum, var undirritaður 30. janúar 2014.   
Verkefnisstjórn Vitundarvakningar um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum, sem er samstarfsverkefni innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis, hefur samið við Brynhildi Björnsdóttur og Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur um gerð stuttmyndar sem mun bera heitið Stattu með þér. Myndin verður forvarnar- og fræðsluefni um réttinn til að ráða yfir eigin líkama, aðsteðjandi ógnir og mikilvægi þess að segja frá. Henni er einkum ætlað að höfða til barna sem eru á aldrinum 10–12 ára en væntanlega mun hún eiga erindi til breiðari aldurshóps.
Allir grunnskólar landsins munu fá afhent eintak af myndinni sem þeir geta fjölfaldað að vild og eftir frumsýningu, sem væntanlega verður í apríl, verður hún aðgengileg á vef Vitundarvakningar. Stattu með þér er ætlað að vera forvörn gegn kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi gegn börnum. Meðal annars verður fjallað um vonir og væntingar, traust og trúnað, virðingu og ábyrgð, kynheilbrigði, góð samskipti, kynferðislegt ofbeldi sem og annað ofbeldi og kynferðislega áreitni. Leitast verður við að styrkja sjálfsmynd barna og auka sjálfsvirðingu, vinna gegn staðalímyndum, skapa mótvægi gegn klámi, vara við hættum á internetinu, stuðla að mynd- og fjölmiðlalæsi og fjallað um mikilvægi þess að sýna virðingu og ábyrgð í samskiptum. 
Verkefnisstjórn um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum stendur meðal annars fyrir sýningum á brúðuleikritinu „Krakkarnir í hverfinu“ í öðrum bekkjum allra grunnskóla á landinu. Þá hafa verið haldin fræðsluþing um allt land fyrir þá sem vinna með börnum og verið er að gera fræðsluefni fyrir réttarvörslukerfið. Vitundarvakningin lét í fyrra gera myndina Fáðu já fyrir unglinga. 

Framleiðendur hennar voru þær Brynhildur Björnsdóttir og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, sem sjá um gerð myndarinnar Stattu með þér, ásamt Páli Óskar Hjálmtýssyni. Fáðu já hefur notið fádæma vinsælda og er aðgengileg á vef Vitundarvakningar með textum á sex tungumálum auk íslensku, sjá vel.is/vitundarvakning. Á vefnum má sjá upplýsingar um fleira fræðsluefni um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi sem er gagnlegt ungu fólki, foreldrum og þeim sem vinna með börnum og unglingum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum