Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samtökin 78 ferðbúa mennta- og menningarmálaráðherra

Samtökin 78 afhentu Illuga Gunnarssyni upplýsingapakka og regnbogavarning í tengslum við ferð hans á Vetrarólympíuleikana í Rússlandi

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra hefur þegið boð Íþrótta- og ólympíusambands Íslands og Alþjóðaólympíunefndarinnar um að vera viðstaddur upphaf Vetrarólympíuleikanna í Sochi, sem verða settir þann 7. febrúar nk. Ráðherrann mun sækja móttökuathöfn fyrir íslensku keppendurna, setningarhátíð leikanna og fylgjast með keppnisgreinum fyrstu dagana.

Í tilefni af fyrirhugaðri ferð ráðherrans á Vetrarólympíuleikana óskuðu Samtökin 78 eftir að fá að afhenda honum upplýsingapakka og regnbogavarning vegna umræðna um afstöðu rússneskra stjórnvalda til samkynhneigðra. Fulltrúar samtakanna áttu fund með ráðherra þar sem rætt var um leikana og afstöðu Samtakanna 78 til þátttöku í þeim. Mennta- og menningarmálaráðherra tók við gjöfunum og ítrekaði jafnframt þá afstöðu sína að hann teldi ekki neina pólitíska yfirlýsingu felast í heimsókn sinni á leikana enda færi hann ekki í boði rússneskra stjórnvalda heldur til að styðja íslensku þátttakendurna. Ráðherra hét einnig samtökunum að ræða málstað þeirra við þarlenda ráðamenn ef tækifæri gæfist.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum