Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dagur leikskólans er í dag

Mennta- og menningarmálaráðuneytið óskar leikskólum landsins til hamingju með dag leikskólans, sem haldinn er í dag, 6. febrúar 2014

Dagur leikskólans er orðin hluti af menningu leikskólasamfélagsins og fastur liður í starfi flestra leikskóla, sem halda daginn hátíðlegan með fjölbreyttum hætti. Leikskólar hafa margir hverjir skapað sér hefðir og brjóta upp starfið á þann hátt að athygli vekur í samfélaginu og er það leikskólastarfi almennt til gleði og sóma.

Í tilefni dagsins er veitt viðurkenningin Orðsporið sem að þessu sinni fer til verkefnisins Okkar mál sem er samstarfsverkefni í Fellahverfi í Reykjavík.

Meginmarkmið verkefnisins er að auka samstarf skóla í Fellahverfi og stofnana í Breiðholti með það að leiðarljósi að efla félagslegan jöfnuð, námsárangur og vellíðan barna í hverfinu. Markmið verkefnisins eru:

  • að auka samstarf milli leikskólans Aspar, leikskólans Holts, Fellaskóla og frístundaheimilisins Vinafells í Fellaskóla
  • að efla samstarf skóla- og frístundastarfs við Þjónustumiðstöð Breiðholts með velferð barna og fjölskyldna að leiðarljósi
  • að nýta tækifæri sem felast í samstarfi við stofnanir í nærsamfélaginu s.s. Menningarmiðstöðina Gerðuberg, Borgarbókasafn,heilsugæslu, íþróttafélög og önnur félagasamtök
  • að efla foreldrasamstarf í leik- og grunnskóla
  • að auka þekkingu kennara og starfsfólks á þáttum sem hafa áhrif á máltöku og læsi allra barna með sérstakri áherslu á börn með annað móðurmál en íslensku
  • að efla fagleg vinnubrögð og færni kennara í starfi með margbreytilegum barna- og foreldrahópi
  • að þróa og innleiða fjölbreyttar kennsluaðferðir sem miða að því að jafna tækifæri barna til náms
  • að afrakstri verkefnisins verði miðlað á fjölbreyttan hátt til annarra er gagn hafa af.

Þetta hefur verið gert með því að skipuleggja fræðslu sem tengist menningu, máli og læsi. Jafnframt hafa verið stigin skref í verkefninu sem þegar hafa mótað inntak, aðferðir og samstarf í skólasamfélaginu í Fellahverfi. Nefna má gagnkvæmar heimsóknir á milli skóla, spjaldtölvu- og málörvunarverkefni og aðkomu fræðimanna að skólastarfinu. 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið óskar forsvarsmönnum verkefnisins Okkar mál til hamingju með Orðsporið.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum