Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Alþjóðadagur móðurmálsins 21. febrúar og móðurmálsvikan 21.-28. febrúar

Íslenska UNESCO-nefndin og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum munu efna til nokkurra viðburða í vikunni 21.-28. febrúar í tilefni Alþjóðadags móðurmálsins

Dagur-isl.-tungu-2012-031

Árið 1999 staðfesti menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, að 21. febrúar ár hvert skyldi vakin athygli á þýðingu móðurmálsins fyrir einstaklinga og mikilvægi þess fyrir menningu þjóða. Sjá nánar á heimasíðu UNESCO.

Íslenska UNESCO-nefndin og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum hafa ákveðið að efna til nokkurra viðburða í vikunni 21.-28. febrúar í tilefni Alþjóðadags móðurmálsins. Leitað hefur verið eftir samstarfi við fjölmarga aðila, m.a. Móðurmál – Félag tvítyngdra barna, Kennarasamband Íslands, Reykjavíkurborg og fleiri aðila, sem hafa látið sig þennan málaflokk varða.

Í tilefni þessa dags í ár verður vakin athygli á starfi fjölmargra aðila sem tengjast ólíkum móðurmálum, hvatt til umræðu í skólum um hvernig sé hægt að koma til móts við nemendur sem tala annað móðurmál en íslensku og myndböndum um efnið komið á framfæri. Efnt verður til samvinnu við skóla um allt land sem felur í sér skráningu einstakra bekkja á tungumálaforða sínum og haldinn verður sérstakur fyrirlestur um ólík móðurmál í skólakerfinu.

Móðurmálsvikunni lýkur með málþingi í Norræna húsinu, föstudaginn 28. febrúar, kl. 15:00–17:00.

Mikil menningarleg verðmæti felast í ræktun móðurmálsins sem auðgar samfélag fólks og tengir saman ólíka menningarheima, bæði innan samfélags og á milli þeirra. Menning á Íslandi býr nú þegar yfir mikilli fjölbreytni og á hverjum degi eru í skólanum börn sem eiga sér fjölmörg ólík móðurmál. Í þessum ríkulega tungumálaforða okkar felast verðmæti sem okkur ber bæði að hlúa að og virða. Dagur móðurmálsins á að minna á það og vera okkur hvatning til að styrkja stöðu móðurmála.

Íslensk málnefnd hvatti til aðgerða svo tryggja mætti sem best stöðu barna sem hafa ekki íslensku að móðurmáli í ályktun sinni á degi íslenskrar tungu 2013.

Í ályktun málnefndar um íslenskt táknmál er bent á mikilvægi þess að tryggja heyrnarlausum börnum og börnum heyrnarlausra foreldra gott máluppeldi og að mál þeirra sé viðurkennt og því sé sýnd virðing hvar sem er í samfélaginu. Aðeins þannig öðlast börnin sjálf jákvæð viðhorf til síns fyrsta máls – íslensks táknmáls – og til döff menningarheims.

Eitt af meginverkefnum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur er einmitt að stuðla að fjöltyngi og menningarlegum fjölbreytileika. Árið 2013 voru staðfest sérstök tengsl hennar við UNESCO með tilkomu alþjóðlegrar tungumálamiðstöðvar, þar sem rétturinn til móðurmálsins verður í brennidepli. Þá má geta þess að á fyrstu ráðstefnu UNESCO í tilefni Alþjóðadags móðurmálsins var Vigdís Finnbogadóttir sérstakur málsvari móðurmálsins (sjá hér).

Sjá nánar á heimasíðum www.unesco.is og www.vigdis.hi.is

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum