Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Breytingar á útgáfu leyfisbréfa kennara

Útgáfa starfsleyfa (leyfisbréfa) fyrir leik- og grunnskólakennara verður í höndum háskólanna sem brautskrá þá

Breyting hefur verið gerð á útgáfu leyfisbréfa kennara. Þeir háskólar sem mennta kennara hafa tekið við útgáfu starfsleyfa (leyfisbréfa) fyrir þá leik- og grunnskólakennara sem þeir brautskrá. Ekki þarf að sækja um útgáfu þeirra bréfa. Samhliða þessari breytingu hefur gjald sem áður var innheimt fyrir útgáfu leyfisbréfa verið fellt niður. Þannig verður útgáfa leyfisbréfa einfölduð og færð nær vettvangi nemenda þeim til hagsbóta.

Háskólarnir munu gefa leyfisbréfin út í umboði mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þeir staðfesta útgefin leyfisbréf með undirskrift og merki viðkomandi skóla. Texti bréfanna og uppsetning verður samræmd með sniðmáti sem ráðuneytið leggur skólunum til. Brautskráðir leik- og grunnskólakennarar fá leyfisbréf afhent með brautskráningarskírteini bæði á íslensku og ensku.

Háskólarnir munu varðveita afrit af útgefnum leyfisbréfum með sama hætti og prófskírteini nemenda. Þá munu skólarnir varðveita upplýsingar um leyfishafa með sambærilegum hætti og námsferil nemenda. Jafnframt mun ráðuneytið halda skrá yfir útgefin leyfisbréf. Leyfishafar eiga að geta fengið staðfest afrit af útgefnum leyfisbréfum í háskólunum með sambærilegum hætti og er um námsferla og prófskírteini.

Leyfisbréf framhaldsskólakennara verða áfram gefin út af ráðuneytinu og um þau þarf að sækja með hefðbundnum hætti. Sama á við umsóknir þeirra sem luku námi fyrir 1. febrúar 2014 eða stunduðu nám sitt erlendis. Gjaldtaka vegna þeirra hefur hins vegar verið fellt niður og fást því öll útgefin leyfisbréf nú án endurgjalds. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum