Hoppa yfir valmynd
5. mars 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Framhaldsskólakynning og Íslandsmót iðn- og verkgreina

Samhliða Íslandsmótinu verður nú í fyrsta sinn haldin stór framhaldsskólakynning á höfuðborgarsvæðinu þar sem tæplega 30 framhaldsskólar og menntastofnanir kynna námsframboð sitt, bæði verklegt og bóklegt.

Íslandsmót iðn- og verkgreina 2014
Verkidn

Framhaldsskólakynning og Íslandsmót iðn- og verkgreina verður haldin í Kórnum í Kópavogi 6. -8. mars nk. Þetta er í fyrsta sinn að haldin verður stór framhaldsskólakynning á höfuðborgarsvæðinu þar sem tæplega 30 framhaldsskólar og menntastofnanir kynna námsframboð sitt, bæði verklegt og bóklegt.

Á sama tíma fer fram Íslandsmót iðn- og verkgreina og er keppnin sú stærsta til þessa. Íslandsmótinu er fyrst og fremst ætlað að kynna iðn- og verkgreinar fyrir ungu fólki og vekja athygli á þeim tækifærum sem felast í námi og störfum í iðngreinum að máta sig við hin ýmsu störf. Keppt verður í 24 greinum og því margt að skoða. Auk keppninnar verða sýningar á margvíslegum iðn- og verkgreinum og einnig atriði á sviði. Grunnskólanemendur verða boðnir sérstaklega velkomnir og þeim og öðrum gestum gefinn kostur á að prófa ýmislegt spennandi undir handleiðslu fagfólks. Ratleikur verður um svæðið og verða verðlaun fyrir rétt svör dregin út í lok hvers dags.

Félag náms- og starfsráðgjafa verður með kynningarbása á svæðinu og munu svara fyrirspurnum um val á námsleiðum, veita upplýsingar um áhugasviðskannanir og fleira. Opið er fyrir almenning alla daga og er aðgangur ókeypis. Sjá dagskrá á menntagatt.is og á Facebooksíðu Verkiðnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum