Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samningar undirritaðir um stuðning við bridge, skák og íþróttastarf fatlaðra

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra undirritaði samninga við Bridgesamband Íslands, Skáksamband Íslands og Íþróttasamband fatlaðra

Samningar-Bridge,-Skak-og-Ithr.sam.-fatladra-005

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra undirritaði samninga við Bridgesamband Íslands, Skáksamband Íslands og Íþróttasamband fatlaðra. Markmið samninganna er að setja skýran ramma um ráðstöfun þess fjár sem veitt er úr ríkissjóði til starfsemi þessara aðila.

Í samningi ríkisins við Skáksamband Íslands segir að markmið hans sé að styrkja starfsemi Skáksambandsins. Hlutverk þess er m.a. að efla mótahald, útbreiðslu og fræðslu í skák á landsvísu, auka upplýsingagjöf um skák og koma fram erlendis fyrir hönd skákhreyfingarinnar. Gunnar Björnsson forseti Skáksambandsins undirritaði samninginn fyrir hönd þess.

Í samningnum við Bridgesamband Íslands um ráðstöfun á framlagi á fjárlögum til starfsemi þess, segir m.a. að hlutverk þess sé að efla mótahald, útbreiðslu og fræðslu í bridge á landsvísu, auka upplýsingagjöf um bridge og koma fram erlendis fyrir hönd bridgehreyfingarinnar. Jafet S. Ólafsson forseti Brigdesambandsins ritaði undir samninginn fyrir hönd þess

Þá var undirritaður samningur við Íþróttasamband fatlaðra, um ráðstöfun á framlögum ríkisins til starfsemi þess og í honum segir m.a.: Meginmarkmið með stuðningi ríkisins við Íþróttasamband fatlaðra er að stuðla að því að fatlaðir eigi þess kost að iðka íþróttir við sem hagstæðust skilyrði og tekur mið af gildi íþróttaiðkunar fyrir uppeldis- og forvarnastarf eins og kveðið er á um í íþróttalögum. Íþróttasamband fatlaðra skal efla, samræma og skipuleggja íþróttastarfsemi meðal fatlaðra og koma fram fyrir hönd fatlaðra í erlendum samskiptum. Íþróttasamband fatlaðra vinnur að útbreiðslu og fræðslu viðkomandi íþróttagreina meðal fatlaðra á landsvísu. Samningsaðilar taka mið af stefnumótun ráðuneytisins í íþróttamálum á samningstímanum. Samninginn undirritaði Sveinn Áki Lúðvíksson formaður Íþróttasamband fatlaðra ásamt mennta- og menningarmálaráðherra.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum