Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Norrænn ráðherrafundur um menningarmál í Reykjavík

Nýr samningur um Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn samþykktur

Fundur norrænna menningarmálaráðherra í apríl 2014.
Norraenn-raherrafundur-Kultur-april-035

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra stýrði fundi menningarmálaráðherra Norðurlanda í dag. Fundurinn var haldinn í Hörpu og hann sóttu ráðherra allra Norðurlanda og sjálfstjórnarsvæðanna eða fulltrúar þeirra. Þeir samþykktu m.a. endurnýjaðan samning til fimm ára um Norræna kvikmynda- og sjónvarps sjóðinn þar sem fram kemur að sameiginlegt framlag ríkjanna og annarra aðila að sjóðnum verður samtals fjárhæð um 77,7 milljónir danskra króna á ári.

Ráðherrarnir samþykktu einnig fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir 2015 á sviði menningarmála og fleiri erindi sem snerta þann málaflokk.

Í lok fundarins mættu þjóðskjalaverðir frá öllum Norðurlöndunum og  kynntu helstu viðfangsefni sín og úrlausnarefni sem við blasa. Þar má t.d. nefna varðveislu gagna á rafrænu formi og aðgengi almennings að skjölum á netinu. Vakin var athygli á hugsanlegri löggjöf Evrópusambandsins um rétt einstaklinga til að fá nöfn sín og persónuupplýsingar afmáðar af netinu, t.d. fjá Facebook og öðrum samfélagsmiðlum. Hugsanlega mun þessi réttur einnig ná til upplýsinga í fórum stjórnvalda, þ.e. þeirra sem varðveitt eru eða verða varðveitt í skjalasöfnum.

Fundinum lauk með að ráðherrarnir undirrituðu yfirlýsingu um stuðning við alþjóðlega yfirlýsingu sem aðalráðstefna UNESCO samþykkti árið 2011 um skjalasöfn.

Menningarmálaráðherrarnir tóku þátt í hátíðarhöldum í Hörpu vegna útgáfu nýrra þýðinga á Íslendingasögunum á dönsku, norsku og sænsku. Illugi Gunnarson mennta- og menningarráðherra afhenti við það tækifæri ráðherrum og öðrum fulltrúum allra ríkisstjórna á Norðurlöndunum eintök af bókunum og er myndin tekin við það tækifæri.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum