Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ný könnun á brotthvarfi úr framhaldsskólum

Brot á skólareglum og slök mæting helsta ástæða þess að nemendur hættu í námi

Niðurstöður úr rannsókn á ástæðum nemenda fyrir brotthvarfi frá námi á haustönn 2013 liggja fyrir. Fyrsta könnunin var gerð vorið 2013 og ekki komu fram veigamiklar breytingar á ástæðum sem nemendur tilgreindu fyrir brotthvarfi.


Karlar Konur Alls Hlutfall af heild
Fór að vinna 91 47 138 13%
Flutningar 9 13 22 2%
Fjárhagsaðstæður 16 17 33 3%
Námsörðugleikar 3 3 6 1%
Fannst námið tilgangslaust/áhugaleysi 55 31 86 8%
Nám of erfitt 14 13 27 3%
Samskiptaörðugleikar við starfsfólk skóla 0 1 1 0%
Einelti 3 0 3 0%
Vísað úr skóla/brot á skólareglum 134 86 220 21%
Veikindi barna 1 5 6 1%
Fór í annan skóla 100 70 170 16%
Líkamleg veikindi 11 36 47 4%
Persónulegar ástæður 24 38 62 6%
Neysla/meðferð 13 7 20 2%
Andleg veikindi 51 59 110 10%
Annað 62 47 109 10%
Samtals 587 473 1060 100%

Alls hættu 1060 nemendur, 587 karlar og 473 konur, námi án þess að ljúka prófum í lok haustannar 2013. Til samanburðar þá hættu 1002 nemendur námi á vorönn 2013. Þá skiptu 117 nemendur um skóla og því voru 885 nemendur sem töldust til hóps eiginlegra brotthvarfsnemenda. Á haustönn 2013 skiptu 170 nemendur um skóla og því teljast 890 nemendur hafa hætt námi. Samkvæmt þessu hættu nánast jafnmargir nemendur námi á vor- og haustönn 2013. Í báðum rannsóknunum kom fram að brot á skólareglum/slök mæting væri helsta ástæða þess að nemendur hættu námi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur undanfarin ár, í samstarfi við framhaldsskólana, beitt sér fyrir aðgerðum til að draga úr brotthvarfi. Aðgerðirnar snúa m.a. að því að kalla eftir upplýsingum um ástæður fyrir brotthvarfi frá öllum framhaldsskólunum svo og að skima fyrir brotthvarfi í þeim skólum þar sem brotthvarf hefur verið hvað mest.

Líkt og á vorönn 2013 var samræmt skráningablað sent til skólameistara allra framhaldsskóla á landinu. Allir skólarnir (31) skiluðu niðurstöðum skráninga af sér til ráðuneytisins í ársbyrjun 2014 og nú hefur verið unnið úr þeim og niðurstöður birtar í skýrslunni „Brotthvarf úr framhaldsskólum: Haust 2013“.

Nokkur munur er á ástæðum þess að nemendur hættu í námi. Af þeim sem fæddir voru á árunum 1994-1997 (20 ára og yngri) fóru 157 nemendur, eða tæp 26%, í aðra skóla. Úr hópi eldri nemenda fóru 11 eða tæp 3% í aðra skóla. Flutningur á milli skóla er því algengari á meðal þeirra sem tilheyra yngri hópnum. Alls var 220 nemendum vísað úr skóla vegna brots á skólareglum.

Nokkrar breytingar voru gerðar á skráningu frá vorönn 2013 þar sem í ljós kom að í nokkrum tilvikum var ekki haft samband við þá nemendur sem hurfu frá námi vegna þess að þeir uppfylltu ekki viðmið um lágmarksmætingu. Því þótti ástæða til að taka út möguleikann „féll á mætingu“ til þess að nánari upplýsingar fengjust um hvað lægi að baki því að nemendur hættu að mæta í skólann. Einnig var ákveðið að sundurgreina ekki andleg veikindi eins og gert var á vorönninni. Óskað var eftir því, líkt og á vorönn 2013, að haft yrði samband við alla nemendur sem hættu námi á önninni. Viðmiðið var að nemandi hefði hafið nám á önninni en ekki skilað sér í próf í lok annar. Niðurstöður skráninga ná því ekki til þeirra nemenda sem hættu námi á milli anna. Lögð var rík áhersla á að skráður yrði aldur þeirra sem hættu þ.e. fæðingarár fram að 20 ára aldri en eftir tvítugt flokkast nemendur sem „eldri“. Einnig var óskað eftir því að skráð yrði sérstaklega hvort móðurmál þeirra sem hættu væri annað en íslenska. Beðið var um að skráð yrði ein ástæða hjá hverjum nemenda og var það lagt í hendur náms- og starfsráðgjafa skólanna, sem höfðu samband við nemendur eftir að þeir hættu, að meta hver væri meginástæða fyrir brotthvarfi hvers og eins. Ekki verða birtar upplýsingar um brotthvarf einstakra skóla, tegund náms eða skóla.

Frekari aðgerðir gegn brotthvarfi

Haustið 2013 var haldið áfram að skima fyrir nemendum í brotthvarfshættu og tóku 17 skólar þátt í verkefninu. Verkefnið felst í því að spurningalisti var lagður fyrir þá nýnema úr grunnskóla sem innrituðust í umrædda skóla haustið 2013. Spurningalistanum/skimunarprófinu, sem hannað er af Kristjönu Stellu Blöndal lektor við Háskóla Íslands, er ætlað að finna nemendur sem eru í brotthvarfshættu. Fulltrúar þeirra skóla sem tóku þátt í skimunarverkefni ráðuneytisins hafa allir lýst yfir ánægju sinni með verkefnið og telja að það að skima fyrir nemendum í brotthvarfshættu geti átt sinn þátt í að minnka brotthvarf.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum