Hoppa yfir valmynd
13. maí 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nýr kafli Biophiliu 

-Ísland leiðir norræna samvinnu um skapandi kennsluaðferðir

-Björk og norrænir  lista- og vísindamenn í fremstu röð taka þátt

-Viðamikið þverfaglegt kennsluverkefni þar sem sköpun er í forgrunni

Biophilia-Specialists-1

Árið 2014 fer Ísland með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Í því felst m.a. að leiða ýmis norræn samvinnuverkefni og er Biophilia kennsluverkefnið eitt af þeim.

Biophilia er viðamikið kennsluverkefni sem byggir á víðtækri þátttöku fræðimanna, vísindamanna, listamanna, kennara og nemenda á öllum skólastigum. Það byggist á því að nota sköpun sem menntunar- og rannsóknaraðferð þar sem náttúruvísindi, tónlist og tækni eru tengd saman á nýstárlegan hátt. 

Tónvísindasmiðjur um allan heim

Verkefnið var þróað af Björk Guðmundsdóttur, Reykjavíkurborg og Háskóla Íslands í tengslum við útkomu plötu hennar Biophilia árið 2011. Þá voru haldnar tónvísindasmiðjur fyrir börn samhliða tónleikum Bjarkar í Hörpu, en þær hafa síðan verið reyndar víða um  heim, s.s. í New York, Buenos Aires, Osló og Tokyo.

Í tilefni af formennskuárinu 2014 óskuðu íslensk stjórnvöld eftir samstarfi við hin Norðurlöndin um frekari þróun Biophiliu kennsluverkefnisins. Staðbundin samstarfsnet verða sett á öllum Norðurlöndum, þ.m.t. Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.

Norrænir lista- og vísindamenn í fremstu röð 

Mikilvægur áfangi í samstarfinu verður nú í vikunni þegar hópur norrænna sérfræðinga með vísindamönnum, listamönnum, fræðimönnum og kennurum hittist á Íslandi til þess að skerpa á og betrumbæta verkefnið auk þess að finna nýjar og frumlegar leiðir, og hugmyndir, sem nýta má í kennslunni.

Í hópnum eru Sunleif Rasmussen, eitt helsta tónskáld Færeyja; Anja Andersen, stjarneðlisfræðingur hjá Dark Cosmology Centre við Niels Bohr stofnunina í Danmörku; Pipaluk Jörgensen, leikskáld og leikstjóri frá Grænlandi;  Cecilia Björck, doktor í heimspeki tónlistarmenntunar við Háskólann í Gautaborg; Esko Valtaoja, rithöfundur og prófessor í stjörnufræði við Háskólann í Turku; Alex Strömme prófessor í vísindamenntun við Háskólann í Þrándheimi; Guðrún Geirsdóttir, stjórnarformaður kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands og prófessor í menntunarfræðum, ásamt Björk Guðmundsdóttur.

Hugmyndir og vinna þessa hóps verður undirstaða Biophiliu kennsluverkefnisins. Verkefnið mun svo þróast áfram í samstarfi við hvert svæði, þar sem það verður reynt og taka mið af áherslum og aðstæðum á hverjum stað fyrir sig.

Markmiðið er nýsköpun og umbreyting kennsluhátta

Biophilia kennsluverkefnið stendur yfir í þrjú ár. Undirbúningur stendur yfir árið 2014, framkvæmdin verður árið 2015 og eftirfylgni og mat árið 2016.

Markmiðið með norræna samstarfinu er að: 

  • efla nýsköpun í skólastarfinu með því að þróa kennsluaðferðir sem sameina þekkingu, sköpun og tækni,
  • umbreyta hefðbundnum kennsluháttum með þverfaglegri nálgun, þvert á aldurshópa, kennslugreinar og fagsvið,
  • þróa staðbundin samstarfsnet í þátttökulöndunum, sem tengjast á norrænum samstarfsvettvangi og þar sem unnið verður að því að efla norrænt notagildi,
  • þróa veflægan starfsvettvang fyrir norrænt samstarf , án landamæra og fyrir mismunandi faghópa,sem verður áfram til eftir að verkefninu lýkur.

Nánari upplýsingar veitir:
Auður Rán Þorgeirsdóttir, verkefnastjóri, s. 615 2628
[email protected]


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum