Hoppa yfir valmynd
20. maí 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ný lög um mennta- og menningarmál

Alþingi samþykkti meðal annars ný lög um opinber skjalasöfn á vorþingi

thjodskjalasafn_05_rgb_600_1

Á 143. löggjafarþingi Alþingis, sem lauk fyrir skömmu, voru samþykkt nokkur lög á málefnasviði mennta- og menningarmálaráðuneytis. Nýju lögin eru ekki komin á vef Alþingis og því eru hér að neðan hlekkir á frumvörpin.

Fyrst ber að nefna ný lög um opinber skjalasöfn (frumvarp), sem hafa verið lengi í undirbúningi og hlotið mikla umfjöllun. Markmið laganna er að tryggja vörslu og örugga meðferð opinberra skjala með réttindi borgaranna, hag stjórnsýslunnar og sögu íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi. Með nýju lögunum er stjórnsýsla á málefnasviði Þjóðskjalasafnsins einfölduð og hún skýrð frekar en áður með hliðsjón af fjölþættu hlutverki safnsins. Þá gefa nýju lögin færi á að auka hagkvæmni og skilvirkni í rekstri Þjóðskjalasafns.

Þá voru afgreidd lög um breytingar á ýmsum lögum vegna framlengingar á gildistíma samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms (frumvarp). Lögin fela í sér framlengingu á tímabundinni verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þátttöku ríkisins í kennslukostnaði í mið- og framhaldsnámi í söng, og framhaldsnámi í hljóðfæraleik í samræmi við framlengt samkomulag ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms.

Lög um minniháttar breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna voru afgreidd. Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. að með breytingunni er nánar kveðið á um skyldu stjórnar LÍN til að setja sérstakar úthlutunarreglur til nánari útfærslu á lögunum, þær þurfi að vera samþykktar af ráðherra og þá er sú nýbreytni að tilgreind eru tímamörk um hvenær reglurnar skulu kynntar.

Samþykkt voru lög um breytingu á lögum nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda  við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla (frumvarp). Eftir breytinguna verður unnt að veita þeim kennsluréttindi sem lokið hafa námi til fullra réttinda í skipstjórn og vélstjórn auk 60 eininga náms í uppeldis- og kennslufræði fyrir framhaldsskóla.

Einnig voru samþykkt lög um breytingar á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008 (frumvarp). Gerð var breyting á 11. gr. laganna, sem fjallar um námsorlof,  í þá veru að hún taki ekki aðeins til kennara, skólameistara og annarra faglegra stjórnenda heldur einnig til náms- og starfsráðgjafa. Breyting á h-lið 12. gr. snýst um viðurkenningu á húsnæði einkarekinna framhaldsskóla þannig að kveðið er á um að kennsla skuli fara fram í skólahúsnæði sem uppfyllir lög og reglugerðir þar að lútandi. Með breytingum á 45. gr. laganna verður skólum heimilað, með sérstöku leyfi ráðherra, að innheimta gjald fyrir rafrænt námsefni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Gert er ráð fyrir því að ráðherra veiti skólum slíka heimild í tilraunaskyni í takmarkaðan tíma og hún skuli bundin við tilteknar námsgreinar. Um frekari útfærslu þess verður nánar kveðið á í reglugerð. Að lokum var gerð orðalagsbreyting á 1. mgr. 47. gr. laganna þess efnis að sveitarfélög skulu leggja til lóðir undir framhaldsskóla án kvaða eða gjalda.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum