Hoppa yfir valmynd
22. maí 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Opinn fyrirlestur um lestur og lestrarnám

Dr. Maryanne Wolf, prófessor við Tufts University í Boston og sérfræðingur um lestur,  flytur fyrirlestur í Hörpu 27. ágúst nk.

Bandarískur sérfræðingur um lestur, dr. Maryanne Wolf, prófessor við Tufts University í Boston, flytur opinn fyrirlestur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis í Norðurljósasal Hörpu 27. ágúst 2014 kl. 13–17.

Drög að dagskrá:

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra flytur ávarp um áherslu stjórnvalda.

Dr. Maryanne Wolf prófessor flytur fyrirlestur um lestrarnám og læsi.

Umræður.

Dr. Wolf er prófessor við Tufts University í Boston og forstöðumaður lestrar- og tungumálarannsóknarstöðvar innan sama háskóla. Fyrirlestur hennar er á ensku og nefnist The Story and Science of the Reading Brain (vinnutitill). Hún hefur stundað viðamiklar taugalíffræðilegar rannsóknir á lestrarferli og lestrarerfiðleikum með sérstakri áherslu á lesblindu. Hún hefur í samvinnu við samstarfsfólk sitt við Tufts háskólann þróað og gefið út stuðningsefni sem nefnist RAVE-O og er ætlað til snemmtækrar íhlutunar við lestrarerfiðleika skólabarna.

Dr. Wolf hefur skrifað yfir 120 vísindagreinar. Bók hennar, Proust and the Squid: The Story and Science of the Reading Brain, kom út 2007. Bókinhefur hlotið fjölda viðurkenninga og var meðal annars talin besta bók ársins um lestur af alþjóðlegum samtökum um lesblindu (IDA-NY). Bókin er ætluð almenningi og hefur verið þýdd á 13 tungumál. Dr. Wolf hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir rannsóknir sínar og störf, m.a. The Samuel Torrey Orton verðlaunin, sem er æðsta viðurkenning alþjóðlegra samtaka um lesblindu (IDA). Sú viðurkenning er veitt þeim sem hafa með vísindalegum rannsóknum varpað ljósi á lesblindu og aukið þekkingu og skilning á því hvernig unnt er að bregðast við með faglegri íhlutun.

Dr. Wolf hlaut nýlega verðlaun fyrir brautryðjandastarf í lestrarkennslu en hún hefur í samvinnu við teymi frá MIT háskóla í  Boston og fleiri þróað stafrænt lestrarefni fyrir börn sem hafa engan aðgang að skóla í fjarlægum svæðum í Eþíópíu og Suður-Afríku.

Fyrirlesturinn verður haldinn í samvinnu við ýmsa aðila, sem síðar verða kynntir, verður öllum opinn og aðgangur verður ókeypis. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hvetur alla sem áhuga hafa á lestrarnámi og læsi til þátttöku.

Frekari upplýsingar um þennan viðburð verða birtar síðar á vef ráðuneytisins, t.d. um skráningu. Upplýsingar um dr. Maryanne Wolf er m.a. að finna á vef Tufts University í Boston. Slóðin er http://ase.tufts.edu/crlr/team/wolf.htm

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum