Hoppa yfir valmynd
4. júní 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nýr samstarfssamningur um stuðning við dönskukennslu á Íslandi

Meðal annars er gert ráð fyrir að tveir danskir farkennarar koma á hverju skólaári til starfa við grunnskóla og framhaldsskóla landsins

Undirritun samnings um dönskukennslu
Illugi Gunnarsson og Christine Antorini

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Christine Antorini menntamálaráðherra Danmerkur skrifuðu þann 3. júní undir nýjan samstarfssamning um stuðning við dönskukennslu á Íslandi, sem meðal annars felur í sér að danskir kennarar komi hingað til starfa. Samningurinn gildir fyrir árin 2014-2019 og er framhald á samstarfi sem hófst árið 1996.

Markmið samstarfsverkefnisins eru að:

  • styðja við dönskukennslu í íslenskum skólum með sérstöku tilliti til munnlegrar færni,
  • miðla danskri menningu í íslenskum skólum og
  • auka áhuga á dönsku og vitund um mikilvægi málskilnings fyrir Íslendinga.

Meðal þeirra verkefna sem samningurinn nær til má nefna að ráðinn er lektor eða annar sendikennari á hverju skólaári til starfa við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, ráðnir eru tveir farkennarar á hverju skólaári til starfa við grunnskóla og framhaldsskóla landsins og árlega verða íslenskum dönskunemendum á háskólastigi veittir styrkir til námsferða til Danmerkur. Þá verða haldin endurmenntunarnámskeið fyrir dönskukennara í grunnskólum og framhaldsskólum. Þau geta verið haldin hvort sem er á Íslandi eða í Danmörku.

Verkefnið er styrkt af menntamálaráðuneytinu í Danmörku og mennta-og menningarmálaráðuneytinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum