Hoppa yfir valmynd
18. júní 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Tæplega 400 styrkir veittir úr Nordplusáætluninni árið 2014

Samtals hlutu 238 stofnanir hér á landi styrki til þátttöku í margvíslegum samstarfsverkefnum

Nordplus

Nýlega var haldinn hér á landi vorfundur í stjórn Nordplus, menntaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar, en Ísland fer með formennsku í norrænu samstarfi á þessu ári.  Á stjórnarfundinum voru m.a. samþykktir styrkir til þeirra sviða sem áætlunin nær til.

Skólar á öllum skólastigum á Íslandi og stofnanir hafa verið virkir þátttakendur í Nordplus. Að þessu sinni hlutu 238  stofnanir hér á landi fjárstuðning til þátttöku í fjölbreytilegum samstarfsverkefnum.  Umsóknir í Nordplus að þessu sinni voru 645 frá þátttökulöndunum og hlutu 61% verkefna (396) styrk, samtals að upphæð 10.450.956 evrur. Alls taka því 2834 stofnanir þátt í verkefnum en það er svipað umfang og á undanförnum árum.  Þessi fjöldi umsókna sýnir mikinn áhuga á Norrænu samstarfi í menntamálum og þátttaka Eystrasaltsþjóðanna fer einnig vaxandi.

Markmið Nordplus er að stuðla að gæðum og nýsköpun í menntun á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum.  Áætlunin nær til allra Norðurlandanna, þ.e. Íslands, Svíþjóðar, Finnlands, Noregs og Danmerkur, sjálfsstjórnarsvæðanna þriggja, þ.e. Grænlands, Færeyja og Álandseyja. Einnig eru Eystrasaltsþjóðirnar þrjár aðilar að Nordplusáætluninni, þ.e. Eistland, Lettland og Litháen.

Í Nordplus áætluninni eru 5 undiráætlanir:

  • Nordplus Junior sem veitir styrki á sviði leik-, grunn- og framhaldsskóla,
  • Nordplus Higher fyrir háskólastigið,
  • Nordplus Voksen fyrir fullorðinsfræðslu,
  • Nordplus Horisontal fyrir verkefni þvert á menntakerfið og
  • Nordplus Sprog, norræna tungumálaáætlunin.

Rannís hefur yfirumsjón með Nordplus hér á landi en fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis sitja í stýrihópi Nordplus.  Nánari upplýsingar eru á www.nordplus.is og www.nordplusonline.org

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum