Hoppa yfir valmynd
18. júní 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Hátíðarræða Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra á Hrafnseyri 17. júní 2014

Illugi Gunnarsson Hrafnseyri 17. júní 2014 nr. 2
Illugi Gunnarsson Hrafnseyri 17. júní 2014 nr. 2

Hátíðarræða Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra á Hrafnseyri 17. júní 2014

Góðir þjóðhátíðargestir.

Saga þessa staðar er hluti af sameign og arfleið okkar Íslendinga. Á Eyri var höfuðból og setur höfðingja og presta. Hér var Grélöð írsk jarlsdóttir fyrsta húsfreyjan en eftir henni er haft að á þessum stað hafi verið sem „hunangsilmur úr grasi“. Héðan lagði Hrafn Sveinbjörnsson af stað í ferðir sína um Evrópu; til Norðurlanda, til Rómar, til Kantaraborgar, St. Gilles í S-Frakklandi og Santiago de Compostela.

Hér hófst ferð Jóns Sigurðssonar á þann vettvang og til þeirra starfa í Kaupmannahöfn og á Alþingi sem að lokum leiddi til fullveldisins 1918 og lýðveldisins 1944.

Um Vestfirði átti Jón Sigurðsson alla tíð trausta fylgismenn. Svo trausta að hann þurfti ekki að hafa stórar áhyggjur af þingsæti sínu og ekki voru prófkjörin að íþyngja honum!

Jón Sigurðsson skipaði sér, þegar í upphafi þátttöku sinnar í stjórnmálum, afgerandi og sérstakan sess í huga þjóðarinnar. Mikinn þátt í því átti sú staðreynd að með skrifum sínum í Nýjum félagsritum gerðist hann í raun leiðbeinandi og kennari bæði í verklegum efnum, pólitískri hugsun, pólitískri aðferðafræði sem og því að beina augum lesenda sinna að því sem var að gerast á meginlandinu í stjórnmálum og atvinnuþróun. Og hér er rétt að hafa í huga að um þessar mundir voru miklir umbrotatímar í evrópskri sögu; pólitískt og efnahagslega. Á þessum tíma voru að mótast hugmyndir bæði um hlutverk og mikilvægi þjóðernis og stétta, stöðu einstaklinga og ríkisvalds, inntak og takmörk þingræðis, hlutverk og inntak stjórnarskrár, frelsi til athafna, takmörkun athafna, stéttabaráttu og margvísleg önnur grundvallaratriði sem skipta máli enn þann dag í dag.

Í bréfi til Jóns 1846 segir ungur bóndasonur að norðan:

 „Síðan ég fór að lesa þau („Félagsritin“) þá hefir hugur minn snúist í allt annað horf en hann áður var. Þau elska ég mest allra bóka sem ég þekki, þeim á ég að þakka dálítinn áhuga sem kominn er í mig til að hugsa um hag fósturjarðarinnar.“

Og síðar úr sama bréfi:

 „Guð almáttugur efli hjá mér þann vísdóm sem kennir mér að þekkja það rétta gagn mitt og þjóðar minnar.“

Okkur sem lifum við gnægð fjölmiðla af öllu tagi, kennslubóka í hverju viðfangsefni sem við kunnum að hafa áhuga á, auk „sjálfshjálparbóka“ ýmiss konar um fjölbreyttar leiðir til lífshamingju, kann að finnast þessi orð bóndasonarins eilítið barnsleg, naív, opin og opinská. Félagsritin eru ekki beinlínis skemmtilesning heldur stútfull af alvarlegri umræðu og fróðleik.

Það er þó ekki nokkur ástæða til að efast um einlægnina sem hér birtist og því síður er ástæða til að efast um að þeir voru fleiri en þessi bóndasonur frá Ljósavatni sem fundu sér í Félagsritunum pólitíska kennslubók, þangað sem unnt var að sækja sér vísdóm sem kenndi mönnum að þekkja hið rétta gagn þeirra og þjóðar þeirra.

Því þetta tvennt, gagn einstaklingsins og gagn þjóðarinnar, hlaut að fara saman.

En það voru fleiri en ungir menn og óreyndir sem hrifust af Jóni Sigurðssyni; jafnvel pólitískir andstæðingar hans hlutu að viðurkenna hið augljósa.

Jón Ólafsson ritstjóri sagði að Jón væri „skilgetinn óskasonur sinnar tíðar og síns lands“ og hafi hrært „hina þjóðlegustu og innilegustu strengi í brjósti landa sinna og samtíðar“. Og bætti við: „Það má segja um alla mikla menn að þeir séu spegill sinnar tíðar. Þess vegna eru og miklir menn jafnast meira og minna einhliða í skoðunum og er það þeirra ófullkomleiki og þeirra styrkur um leið. Það er þeirra ófullkomleiki af því að sannleikurinn getur oft liðið við það að menn sjá of mjög á eina hlið málanna, en það er og styrkur mikilla framkvæmdamanna að þeir hafa aldrei augun af þeirri hlið, er þeir hafa fest sjónar á, og beita því öllu afli sínu á einum stað.“

Illugi Gunnarsson Hrafnseyri 17. júní 2014Menntun forsenda framfara

Um Jón Sigurðsson má reyndar segja að hann hafi beitt afli sínu á öllum sviðum þjóðlífsins og honum voru fullljós hversu viðfangsefnin voru brýn og aðkallandi. Þar á meðal, að sjálfsögðu, aukin og almenn menntun.

Það er í raun merkilegt til þess að hugsa að á hans tímum voru afskipti hins opinbera af grunnmenntun landsmanna voru í raun lítilfjörleg. Árið 1874 voru t.d. aðeins starfræktir sex barnaskólar í landinu; reknir af einstaklingum eða sveitarfélögum. Alþingi virðist ekki hafa sýnt þessum málum mikinn áhuga því að það er ekki fyrr en 1879 að lög eru sett um uppfræðslu í skrift og reikningi.

Fram til þess tíma hafði Húsagatilskipunin frá 1746, sem sett var í kjölfar úttekta og skýrslu Harboe, dugað til að gera Íslendinga læsa. Sú tilskipun fól húsbændum að annast og bera ábyrgð á kennslu í lestri og kristnum fræðum undir eftirliti presta.

Þetta fyrirkomulag var ekki mjög íþyngjandi fyrir ríkissjóð þess tíma, , en virðist hafa verið sæmilega skilvirkt, svo notað sé nútímaorðalag.

Við Íslendingar höfum löngum hrósað okkur af því, með hæfilega réttu, að vera og hafa verið, jafnvel alla tíð, læs þjóð og aldrei dregið í efa mikilvægi þess. Við höfum fullyrt að almennt læsi væri forsenda jafnræðis og þátttöku í samfélaginu; hornsteinn lýðræðis og lýðræðislegrar þátttöku almennings í að móta samfélag sitt.

Því er það okkur töluvert áfall og áhyggjuefni þegar alþjóðlegar samanburðarrannsóknir, PISA, sýna að hér á landi er ekki allt sem sýnist og segja má að við höfum vaknað upp af værum blundi. Tölur sem sýna að nærri þrjátíu prósent drengja eigi erfitt með að lesa sér til gagns, hafa til að mynda vakið mikla athygli.

Ég hef á undanförnum misserum oft vikið að þessum rannsóknarniðurstöðum enda finnast mér þær svo alvarlegar, allra hluta vegna, að þær hljóti að krefja okkur um fumlaus og skjót viðbrögð.

Mér þykir mjög við hæfi, á þessum degi og á þessum stað, að leggja fyrir ykkur „Hvítbók um umbætur í menntamálum. Í henni er lögð fram sú framtíðarsýn að ungt fólk á Íslandi hafi sömu möguleika til að lifa og starfa í síbreytilegum heimi og jafnaldrar þess í löndum sem við berum okkur saman við. Til að svo megi verða þarf að veita nemendum á Íslandi tækifæri til menntunar sem stenst samanburð við það sem best gerist erlendis.

Í bókinni eru sett fram markmið um að árið 2018 nái 90% íslenskra grunnskólanema lágmarksviðmiðum í lestri og lesskilningi, í stað 79% nú, og að 60% ljúki framhaldsskóla á tilsettum tíma í stað 44% nú.

Forsenda þess að unnt verði að ná þessum markmiðum er að um þau náist víðtæk sátt og að þeir fjölmörgu, sem að menntun koma, séu reiðubúnir að vinna þeim brautargengi.

Ég ætla ekki hér og nú að fjalla frekar um Hvítbókina en hvet ykkur til að kynna ykkur hana og leggja þessu góða máli lið, hver svo sem ykkar vettvangur er í amstri dagsins.

Evrópa í brennidepli

Í upphafi ræðu minnar fór ég nokkrum orðum um þá umbrotatíma sem þjóðir Evrópu stóðu frammi fyrir um miðja 19. öld. Þá var tekist á um mikilsverða hluti, hugsjónir og grundvallaratriði. Mörg álitamál þess tíma hafa fylgt okkur til þessa dags.

Jón Sigurðsson var skilgetinn sonur sinnar tíðar og einnig síns lands eins og Jón Ólafsson komst að orði.

Eins er um okkur sem nú lifum á okkar tíð í okkar fullvalda landi.

Vandamál og viðfangsefni okkar, til skamms og langs tíma, markast verulega af þeim byltingarkenndu breytingum sem orðið hafa í samskiptum þjóða á allra síðustu áratugum. Hér má margt nefna til sögunnar; almenna heimsvæðingu, hreyfanleika manna til náms og vinnu, breyttan fjármálamarkað, breyttar samgöngur og samstarf þjóðríkja svo eitthvað sé nefnt, fyrir utan hina raunverulegu byltingu okkar tíma, „tölvuvæðingunaog „internetiðog allt sem þeirri byltingu fylgir í samskiptum manna á öllum sviðum.

Hér á landi hefur umræðan um nútímann og stöðu og möguleika Íslands og Íslendinga, okkar tíma og okkar land, um nokkuð langt skeið snúist um hugsanlega aðild okkar að ESB. Sú umræða hefur að mestu verið gagnleg og uppbyggileg þótt auðvitað hafi hlaupið snurða á þann þráð öðru hverju!

Meira að segja veruleg snurða.

Í upphafi er rétt að hafa í huga að ESB var í byrjun náið viðskiptasamkomulag stofnríkjanna, þrátt fyrir að menn eins og Robert Schuman og aðrir feður Evrópusamstarfsins hefðu séð fyrir sífellt nánara samstarf. Sú sýn hefur um margt gengið eftir. Með viðaukum við Rómarsáttmálann um fjórfrelsið og fjölgun ríkja innan sambandsins hefur það tekið miklum breytingum og segja má að eðli þess og tilgangur sé nú mun víðtækari en var í upphafi og snerti mun fleiri svið mannlegs lífs en viðskipti, tolla, atvinnu- og fjármál. ESB nú er því annað fyrirbæri en það var þegar umræðan um hugsanlega aðild Íslands tók að mótast. Sú umræða var að mörgu leyti eðlilegt framhald inngöngu okkar og aðildar að EES á sínum tíma. Ýmis þau álitamál sem þá voru til umfjöllunar, s.s. varðandi fullveldið, eru enn áhugaverð, sumir segja óútkljáð, og umræðunnar virði.

Á hitt ber þó að líta í þessu samhengi að eðli EES og samband þess við ESB er enn fyrst og fremst byggt á viðskiptalegum og fjármálalegum samskiptum. Með aðild okkar að EES er okkur í raun tryggð aðkoma að upphaflegum grundvallarreglum Rómarsáttmálans um fjórfrelsið; aðgangur að innri markaði er okkur vís auk annarra hagkvæmra kosta. Í mínum huga er enginn vafi á því að aðild okkar að EES hefur hjálpað okkur við að byggja upp nútímaþjóðfélag og hefur þjónað hagsmunum okkar ágætlega. Ég er líka þeirrar skoðunar og vil undirstrika það að ég sé engin merki þess, að svo komnu máli, að ástæða sé til að óttast um framhaldslíf þess samnings. En hann, eins og önnur samtök og mannanna verk, hefur þróast og mun halda áfram að þróast.

Aðild að ESB ekki viðskiptasamningur

En víkjum þá aftur að þeim breytingum sem orðið hafa á ESB á síðustu árum og þeirri framtíð sem blasir við um frekari þróun þess. Því eitt er víst, að samtök ríkja af þessu tagi geta ekki, eðli máls samkvæmt, staðnað í bundnu regluverki sem lifir einhverskonar sjálfstæðu lífi sem endanlegur „pakki. Þetta er auðvitað eðlilegt, því viðfangsefni og aðstæður allar breytast; stundum verulega og skyndilega eins og fjármálahrunið 2008/2009 sannaði rækilega.

Af þessari ástæðu tel ég auðséð, bæði út frá almennri reynslu og atburðum, en síðast en ekki síst í ljósi umræðu innan ESB síðustu misseri, að sú nálgun og kenning að upplýst umræða um aðild okkar Íslendinga að ESB geti ekki farið fram nema við höfum samning í höndunum eða getum „kíkt í pakkann“ sé í besta falli villandi og í versta falli bæði röng og jafnvel hættuleg. Sá pakki sem hér er talað um að kíkja í liggur fyrir, er núgildandi regluverk ESB, en hann er pakki dagsins í dag.

Ég tel að umræðan beri þess allt of mikinn vott að við nálgumst spurninguna um aðild eins og um væri að ræða gerð viðskiptasamnings, sem tekur til afmarkaðs tíma og sem byggir á vilja beggja aðila til að ná saman um þekkt og fyrirsjáanleg atriði. Að viðbættri þeirri undarlegu stöðu að nokkur hluti þeirra sem vilja kíkja í pakkann hafa jafnframt lýst því yfir að hvað sem því innihaldi líði séu þeir andvígir aðild að ESB. Það þætti undarleg afstaða í hvaða samningsgerð sem er og ekki sýnir hún mikla virðingu fyrir viðsemjandanum. Látum það þó liggja á milli hluta um sinn.

Ég tel okkur Íslendinga ekki þurfa, né sé það brýnast um þessar mundir, að kíkja náið í regluverk ESB til að geta átt upplýsta umræðu um stöðu og framtíð ESB og hvort sú framtíð sé einmitt sú sem við viljum gera að okkar og vera aðilar að. Við getum áreiðanlega fengið einhverjar minniháttar tímabundnar undanþágur frá núgildandi regluverki; en aðild að ESB er tæpast afturkræf aðgerð. Hitt er veigameira og um það þurfum við að gefa okkur tíma til að ræða; erum við sem þjóð reiðubúin að taka þátt í þeirri vegferð sem sannarlega er hafin innan ESB? Við verðum líka að svara þeirri spurningu af hreinskilni hvaða möguleika við getum átt, 300 þúsund manna þjóð, til að hafa einhver teljandi áhrif á þróun sambandsins. Nógu erfitt sýnist það fyrir stór og öflug ríki meginlandsins

Við þurfum þá jafnframt að svara eftirfarandi spurningu; hverra annarra kosta eigum við völ á alþjóðavettvangi í alþjóðavæðingunni? Okkur er rík nauðsyn á frjálsum samskiptum við aðrar þjóðir og getum ekki án þeirra verið. Það á við verslun, fjármál, markaði og síðast en ekki síst menntun og menningu.

Sú skoðun valkosta er því miður ekki nægjanlega djúp eða þroskuð.

Í mínum huga fer því fjarri að andstaða við aðild að ESB sé einhver einangrunarstefna; hvað þá heldur gamaldags þjóðernisstefna.

Allir sem fylgjast með umræðunni á vettvangi ESB skynja og sjá að miklar breytingar eru í vændum á viðfangsefnum sambandsins og þar með regluverki þess, þ.e.a.s. pakkanum margfræga!

Þessi umræða um breytingar og þörfina á þeim þarf ekki að koma á óvart í sjálfu sér. Með sanni má segja að fjármálahrunið, sem opinberaði m.a. geigvænlega skulda- og fjármálastöðu nokkurra ríkja innan sambandsins og ójafna stöðu þeirra í ríkisfjármálum, hafi þrýst mikilsverðum atriðum, sem þó höfðu lengi verið undirliggjandi og til umfjöllunar á ýmsum stöðum, upp á yfirborðið og krafist opinskárrar umræðu.

Þessi atriði og fleiri til hverfast um evruna og framtíð hins sameiginlega gjaldmiðils. Með upptöku hennar var í raun tekin ákvörðun um að skuldavandamál einstakra ríkja innan evrusamstarfsins væru ekki lengur vandi hvers ríkis fyrir sig heldur væri vandinn sameiginlegur, að minnsta kosti að hluta. Undanfarin ár hafa helstu leiðtogar evruríkjanna fundað með reglubundnum hætti til þess að ná saman um sameiginlega lausn á þeim vanda sem við blasir; suðurhluti álfunnar er skuldsettur upp í rjáfur, atvinnuleysi er óbærilegt, einkum hjá ungu fólki, og möguleikar til vaxtar og þar með bættra lífskjara mjög takmarkaðir. Þessi staða grefur mjög undan evrunni og þrátt fyrir að nokkuð hafi hægst um á fjármálamörkuðunum þá er vandinn óleystur.

Forystumenn evruríkjanna vita í hverju lausnin er fólgin og margir þeirra hafa verið ófeimnir við að ræða hana opinberlega. Upptaka evrunnar var í raun ákvörðun um stóraukið samstarf og samruna þeirra ríkja sem tóku upp hina sameiginlegu mynt. Þau miklu vandamál sem nú krefjast lausnar verða ekki leyst öðruvísi en með því að það samrunaferli gangi fram og forsendur hinnar sameiginlegu myntar verði festar í sessi.

Hvar er hinn evrópski Hamilton?

Ekkert er nýtt undir sólinni. Evrópskir stjórnmálamenn eru ekki þeir fyrstu sem þurfa að kljást við vanda sem þennan og væntanlega ekki þeir síðustu heldur ef að líkum lætur.

Í kjölfar Frelsisstríðs Bandaríkjanna blöstu fjölmörg vandamál við fyrsta fjármálaráðherra landsins, Alexander Hamilton. Meðal þess sem mest var aðkallandi var að leysa skuldavanda einstakra ríkja, en stríðsreksturinn gegn Bretum hafði að mestu verið fjármagnaður með skuldsetningu. Norðurríkin voru mjög skuldsett vegna þessa og erfiðlega gekk að afla skatttekna til að standa við skuldbindingar þeirra, greiðslufall blasti við með tilheyrandi afleiðingum. Hamilton fjármálaráðherra lagði því til að hin nýstofnuðu Bandaríki tækju yfir skuldir allra ríkjanna. Þessi hugmynd Hamiltons mætti mikilli andstöðu, einkum fulltrúa þeirra ríkja sem höfðu þegar greitt skuldir sínar eða voru skuldlítil, eins og við mátti búast. Þar voru fremst í flokki ríkin Virginía og Georgía sem höfðu engan áhuga á því að greiða skuldir annarra ríkja sem að þeirra mati höfðu ekki hagað sínum málum jafn skynsamlega og ábyggilega eins og þau höfðu gert.

En deilan um skuldamálin magnaðist enn frekar af þeirri ástæðu að Alexander Hamilton var leiðtogi Sambandssinna í bandarískum stjórnmálum. Hann vildi að Bandaríkin yrðu sambandsríki með öflugt miðstjórnarvald. Á móti stóðu þeir sem vildu að Bandaríkin yrðu samband sjálfstæðra ríkja þar sem miðstjórnarvaldið yrði mjög takmarkað.

Leið Hamiltons varð ofan á. Honum tókst að gera skuldirnar sameiginlegar og það sem meiru skiptir, honum tókst að leggja á skatt til að standa undir greiðslum hinnar sameiginlegu skuldar. Þessi sameiginlega skuld og hinn sameiginlegi skattur varð grunnurinn að sameiginlegum ríkisfjármálum Bandaríkjanna. Jafnframt stofnaði hann fyrsta Seðlabanka Bandaríkjanna til að styðja við hina sameiginlegu mynt ríkjanna.

Með öðrum orðum. Þær ákvarðanir sem sambandssinninn Alexander Hamilton tók á upphafsdögum Bandaríkja Norður-Ameríku lögðu grunninn að sambandsríkinu sem við nú þekkjum. Og án þess að fella stóra sögulega dóma, þá má færa fyrir því rök að ákvarðanir Hamiltons hafi sannað sig og reynst Bandaríkjunum vel.

Það er gagnlegt að rifja upp þessa sögu nú þegar við ræðum um framtíð Evrópu og einkum evrusvæðisins.

Evruríkin hafa nú þegar bundist saman um eina sameiginlega mynt og sameiginlegan Seðlabanka. Þau standa frammi fyrir þeim vanda sem ég hef áður rætt, að sum ríkjanna í samstarfinu eru svo skuldsett að öll efnahagsstarfsemi þeirri er í hættu.

Eina raunhæfa leiðin til að leysa þann vanda sem við er að etja og tryggja varanlega grundvöll evrusamstarfsins, felst í því að feta sömu slóð og Hamilton markaði undir lok átjándu aldar. Sameining ríkisskulda sem léttir á skuldsettu ríkjunum og sameiginleg skattheimta til að standa undir greiðslu þeirra skulda. Lausnin er því sameiginleg ríkisfjármál, langt umfram þær reglur sem fólust í Maastricht-skilyrðunum forðum daga.

Upptaka hinnar sameiginlegu myntar er í raun ákvörðun um að fara þessa leið, leið einhvers konar sambandsríkisins. Og þegar höfð er til hliðsjónar nýliðin saga Evrópu, saga ólýsanlegra stríðshörmunga og þjáninga, þá er bæði skiljanlegt og eðlilegt að þeir menn sem þann tíma lifðu hafi viljað stefna álfunni í slíka átt. Þótt engar tryggingar sé að fá í þessum efnum, þá má skilja þá hugsun þeirra að sameinuð Evrópa, grundvölluð á sameiginlegri mynt, sameiginlegum ríkisfjármálum og sameiginlegum seðlabanka, yrði friðvænlegri heldur en hin sundraða álfa sem reglulega hafði borist á banaspjót.

Valkostir evrusvæðisins eru því óvenju skýrir. Annaðhvort tekst að klára það ferli sem hófst með upptöku evrunnar og lýkur með sameiginlegum ríkisfjármálum eða snúa þarf af braut hinnar sameiginlegu myntar með öllum þeim ófyrirsjáanlegu afleiðingum sem slík ákvörðun hefði í för með sér.

Um það mætti hafa langt mál hvernig evruríkjunum muni ganga að knýja fram aukinn samruna í ljósi þess að kjósendur í álfunni eru í vaxandi mæli tortryggnir í garð sambandsins. Langur vegur er einnig frá því að viðunandi lausn sé til á því hvernig eigi að tengja hið mikla vald sem felst í sameiginlegum sköttum, seðlabanka og skuldum við kjósendur í aðildarlöndunum. Það er til dæmis nokkuð langsótt að tala um sameiginlega evrópska sjálfsmynd, en án slíkrar sameiginlegar sjálfsmyndar er að öllu jöfnu erfitt að efna til atkvæðagreiðslna um sameiginleg málefni. Við þetta bætist sú staðreynd, og flækir málin enn frekar, að ESB stefnir hraðbyri í átt til tveggja þrepa sambands, annars vegar evruþrepið sem þarf að auka samruna sinn og hins vegar löndin sem eru innan ESB en utan evrunnar. Allt eru þetta efni í margar ræður, en vissulega áleitnar spurningar sem krefjast svars, í raun löngu áður en við förum að bollaleggja um inntak samnings við sambandið.

Upplýst umræða um grundvallaratriðin

Við Íslendingar verðum að horfa til þessa alls af mikilli alvöru. Við hófum aðildarviðræður við ESB á mjög veikum pólitískum grunni, með klofið þing og klofna ríkisstjórn. Viðræðurnar sigldu í strand á síðasta kjörtímabili og á síðasta þingi var lögð fram tillaga um formleg slit viðræðnanna, sem ekki tókst að afgreiða.

Því miður hefur umræðan um þessi mál setið föst, hún er í fjötrum þeirrar hugsunar að upplýst umræða geti ekki farið fram án þess að samningur liggi fyrir.

Ég tel að það sé mikilvægt að við leysum þessa fjötra og ræðum um og gerum upp við okkur hvort við viljum taka þátt í samstarfi evruríkjanna sem óumflýjanlega mun leiða í átt til sambandsríkis, ef það samstarf á að skila árangri. Ætlum við að hoppa upp í þennan vagn, vitandi hvert ferðinni er heitið? Viljum við deila verulegum hluta fullveldis okkar með þeim þjóðum sem mynda evrubandalagið? Samrýmist það hagsmunum og sjálfsmynd okkar Íslandinga í bráð og lengd?

Þessum spurningum þarf að svara áður en samnings er leitað og hann veginn og metinn. Svörin við þessum spurningum er hin upplýsta umræða sem þarf að fara fram. Samningur er einungis úrlausnaratriði sem lýtur að því hvernig við síðan tökum upp og aðlögum okkur regluverki ESB eins og það er á þeim tímapunkti sem við óskum inngöngu. Vitanlega eru þar mikilvæg atriði eins og yfirráðin yfir fiskimiðunum sem án efa ráða miklu um afstöðu alls þorra manna. En grundvallaratriðið hlýtur að vera hvort við viljum verða hluti af sameiningarvegferðinni og ef svar þjóðarinnar við þeirri spurningu er já, þá og þá fyrst fer umræðan að snúast um samning, innihald hans og form.

Reynsla okkar Íslendinga er sú að okkur hefur fram til þessa tekist að skapa bærilega sátt um fyrirkomulag utanríkismála okkar. Vitanlega aldrei svo að allir væru fullkomlega sáttir en nægjanlega margir þó og sú sátt hefur að mestu verið þvert á stjórnmálaflokka. Af þeim sökum hafa ekki orðið neinar kollsteypur þrátt fyrir að ólíkar ríkisstjórnir hafi komið og farið, eins og gengur.

Það verður ekki auðvelt að leiða spurninguna um samband okkar við ESB til lykta, en það er óumflýjanlegt verkefni. Til þess að svo megi verða þurfum við að rökræða um meginefni máls, átta okkur á því að áður en til aðildarviðræðna kemur þarf að liggja fyrir að meirihluti þjóðarinnar vilji taka þátt í samrunaferli evrulandanna, vilji að Ísland verði hluti af hinu sameinaða evrusvæði innan ESB. Það er hin upplýsta umræða sem þarf að fara fram.

 

Að lokum ágæta samkoma!

Kjartan Ólafsson komst svo að orði í umfjöllun sinni um þennan stað: „Á Eyri við Arnarfjörð er vatnið tært og djúpt í fornum lindum.“

Á þjóðhátíðardaginn er ekki nema sjálfsagt að saga þjóðarinnar sé okkur efst í huga og þakklæti til þeirra sem leiddu hana fram á við til þess þjóðfélags sem við búum við í dag.

Við eigum við okkar vandamál að glíma eins og eðlilegt er. Við getum jafnvel sagt að í ljósi sögunnar séu þau á margan hátt léttvæg. Við búum við auðævi í atvinnuvegum, frelsi og fullveldi, mannauð og gnótt tækifæra.

En sagan og reynsla liðinna kynslóða er einnig lærdómsrík og af henni ber að læra, þótt allt sé að vísu breytingum háð. Ég hef hér í dag seilst aftur til 18. aldar til að minna okkur á að viðfangsefni og grundvallarhugmyndir um fyrirkomulag samfélags eru ótrúlega keimlík þótt aldir hafi liðið frá þeim degi til þessa dags.

Hugmyndir Jóns Sigurðssonar og samstarfsmanna hans um frelsið, um þjóðernið, um sjálfstæðið, um þjóðarvakninguna og þátttöku landsmanna í að móta eigin framtíð eru enn í fullu gildi og eiga erindi við okkur.

Gleðilega þjóðhátíð.

Hrafnseyri, 17. júní 2014, Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra

Hátíðarræða Illuga Gunnarssonar á Hrafnseyri 17. júní 2014

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum