Hoppa yfir valmynd
19. júní 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Úttekt á framhaldsfræðslukerfinu

Niðurstöður benda til ánægju með framhaldsfræðslukerfið

Í skýrslunni er gerð grein fyrir niðurstöðum viðtala, vinnustofa og vettvangsheimsókna. Á heildina litið ríkir mikil ánægja meðal notenda með framhaldsfræðslukerfið. Sú niðurstaða er í góðu samræmi við önnur gögn sem aflað var við vinnslu þessarar úttektar þ.e. að almennt hafi vel til tekist og að á flestum sviðum hafi tilætluðum árangri verið náð. Að mati úttektaraðila hefur framhaldsfræðslukerfið, eins og það er afmarkað í lögum, náð þeim markmiðum sem sett eru í markmiðskafla laga nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu. Þeir fjármunir sem ríkið ver til málaflokksins eru nýttir á skilvirkan hátt og renna með skýrum hætti til þeirra verkefna sem að er stefnt. Samskipti Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA), Fræðslusjóðs og fræðsluaðila eru á faglega sviðinu til fyrirmyndar þó svo að til staðar sé togstreita um einstaka þætti sem leiðir af ólíkum hlutverkum aðila.

Bakgrunnur

Í lok júní 2013 fól mennta- og menningarmálaráðuneytið Capacent ehf. að gera heildstæða úttekt á framhaldsfræðslukerfinu, sem beinist að hlutverkum, verkaskiptingu og samstarfi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA), Fræðslusjóðs, fræðsluaðila, annarra hagsmunaaðila og ráðuneytis.

Meginmarkmið úttektarinnar var að leggja mat á þróun framhaldsfræðslukerfisins, skilvirkni þess og nýtingu fjár,  athuga hvaða árangri það hefur skilað sl. fimm ár og hvernig samskiptum milli hagsmunaaðila og ákvarðanatöku er háttað. Sérstök áhersla var lögð á að leggja mat á áhrif og skilvirkni kerfisins.

Úttektin nær til FA, Fræðslusjóðs, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Iðunnar fræðsluseturs og Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins. Einnig til framkvæmdastjóra/forstöðumanna og tiltekinna starfsmanna (t.d. náms- og starfsráðgjafa og kennara) auk þessara símenntunarmiðstöðva:

  • Framvegis – miðstöð um símenntun í Reykjavík,
  • Mímir – símenntun,
  • Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi,
  • Fræðslumiðstöð Vestfjarða,
  • Farskólinn Norðurlandi vestra,
  • Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar,
  • Þekkingarnet Þingeyinga,
  • Austurbrú,
  • Fræðslunet Suðurlands,
  • Viska í Vestmannaeyjum,
  • Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og
  • Starfsmennt.

Samhliða úttektinni og eftir að vettvangsheimsóknum úttektaraðila til fræðsluaðila lauk, var gerð viðhorfskönnun meðal notenda þeirrar þjónustu sem framhaldsfræðslukerfið veitir. Það verkefni var fjármagnað af Fræðslusjóði og voru niðurstöður könnunarinnar bornar saman við aðrar greiningar og annað efni sem aflað var í vinnu úttektaraðila. Tilgangurinn var að komast að því hvaða reynslu notendur hefðu af þjónustunni og að leggja mat á stöðu svarenda fyrir og eftir þjónustuna. Með könnuninni var unnt að bera saman afstöðu notenda og þeirra sem veittu þjónustuna til kerfisins. Á heildina litið ríkir mikil ánægja meðal notenda til framhaldsfræðslukerfisins. Sú niðurstaða er í góðu samræmi við önnur gögn sem aflað var við vinnslu þessarar úttektar þ.e. að almennt hafi vel til tekist og að á flestum sviðum hafi tilætluðum árangri verið náð.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir niðurstöðum viðtala, vinnustofa og vettvangsheimsókna. Úttektaraðilar tóku viðtöl við forstöðumenn allra fræðsluaðilanna 14, haldnar voru vinnustofur með þverskurði starfsmanna og vettvangur á hverju landssvæði fyrir sig skoðaður. Einnig voru haldnar vinnustofur með starfsmönnum FA og mennta- og menningarmálaráðuneytis. Þátttakendur í vinnustofum og þeir sem úttektaraðilar ræddu við voru 73. Val á þátttakendum byggðist á ákvæðum verksamnings við ráðuneytið og þeirri afmörkun sem þar er að finna. Í lok skýrslunnar er í texta og töflum gerð grein fyrir fjármögnun framhaldskerfisins og ráðstöfun fjármuna á aðgengilegan hátt.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum