Hoppa yfir valmynd
30. júní 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Aukið löglegt framboð tónlistar á netinu hefur dregið úr ólögmætri dreifingu

Það er meðal annars niðurstaða rýnihóps á vegum mennta- og menningarmálaráðherra um greiningu á hindrunum fyrir streymiþjónustu

Drengir við tölvu mynd frá norden.org
Drengir við tölvu

Í skýrslu rýnihóps á vegum mennta- og menningarmálaráðherra um greiningu á hindrunum fyrir streymiþjónustu kemur fram að hann telur að smæð hins íslenska markaðar sé ein helsta hindrunin fyrir því að erlendar og innlendar efnisveitur bjóði upp á þjónustu sína hér á landi með formlegum hætti. Gera má ráð fyrir að þær sjái sér einfaldlega ekki hag í því að leggja út í þann kostnað sem myndi fylgja aðlögun þjónustunnar fyrir íslenskan markað.

Einnig kemur fram að erlendar efnisveitur, sem hafa ekki veitt formlega aðgang að sínu efni á íslensku landssvæði, greiða enga skatta hér á landi og lúta ekki íslensku lagaumhverfi. Slíkar efnisveitur þurfa t.d. ekki að texta eða talsetja efni sitt eins og innlendar sjónvarpsstöðvar þurfa að gera. Af því leiðir að erfitt er fyrir íslenska aðila að veita þeim samkeppni á jafnræðisgrundvelli. Þeir sem hefðu hug á að koma upp lögmætri efnisveitu hér á landi þyrfti að kaupa sýningarrétt fyrir Ísland sérstaklega og yrði efnisvalmynd slíkrar þjónustu sértæk fyrir íslenskan markað og aðeins ætluð honum. Ætla má að uppsetning þjónustunnar yrði mjög kostnaðarsöm miðað við smæð markaðarins hér á landi.

Gott aðgengi að stafrænu menningarefni og hvers konar afþreyingu er afar mikilvægt fyrir öflugt menningarlíf í íslensku samfélagi að mati rýnihópsins. Greiðara aðgengi að löglegu stafrænu efni spornar gegn ólögmætri notkun.

Áberandi er að aukið löglegt framboð tónlistar á netinu hefur dregið úr notkun ólöglegra leiða. Það var meðal annars niðurstaða úr Capacent könnun um áhorf á kvikmyndir og sjónvarpsefni og hlustun á tónlist hér á landi, þar sem niðurstöður eru einnig bornar saman við niðurstöður úr könnun sem fyrirtækið gerði árið 2011.

Niðurstöður skýrslunnar eru mjög athyglisverðar að mati mennta- og menningarmálaráðuneytisins og gefa tilefni til að athuga sérstaklega hvernig koma megi meira af íslensku efni á streymisveitur, auka framboð á íslensku efni á vefnum og sporna gegn ólöglegri dreifingu efnis.

Bakgrunnur:

Í desember 2013 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra rýnihóp um greiningu hindrana á uppsetningu streymiþjónustu hér á landi fyrir kvikmyndir, sjónvarpsefni og tónlist. Samkvæmt skipunarbréfi var hlutverk rýnihópsins að greina þær hindranir sem kunna að vera á því að íslenskum notendum standi til boða sambærileg streymiþjónusta fyrir kvikmyndir, sjónvarpsefni og tónlist eins og notendum í öðrum norrænum ríkjum. Var rýnihópurinn skipaður fulltrúum frá útgefendum og rétthöfum fyrir kvikmyndir og tónlist, og fulltrúa frá fjölmiðlanefnd vegna greiningar á lagaskilyrðum fyrir starfsrækslu streymiþjónustu hér landi.

Í rýnihópnum sátu:

·         Magnús Ragnarsson, formaður, skipaður af ráðherra án tilnefningar,

·         Björn Sigurðsson, tilnefndur af hálfu Senu,

·         Elfa Ýr Gylfadóttir, tilnefnd af hálfu fjölmiðlanefndar,

·         Guðrún Björk Bjarnadóttir, tilnefnd af hálfu STEFs,

·         Hilmar Sigurðsson, tilnefndur af hálfu SÍK, Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda,

·         Snæbjörn Steingrímsson, tilnefndur af hálfu Samtaka myndréttarhafa á Íslandi.

Starfsmaður rýnihópsins var Margrét Magnúsdóttir lögfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Úr skýrslunni:

- Með tilkomu löglegra efnisveita á netinu, sem bjóða upp á einfaldari og aðgengilegri leiðir til að njóta tónlistar, kvikmynda og sjónvarpsefnis er ólölegt niðurhal orðið síðri kostur fyrir notendur en áður. Að mati rýnihópsins eru það nokkur vonbrigði hversu lítil þróun hefur orðið á framboði á löglegum kostum fyrir notendur á stafrænu menningarefni hér á landi, einkum þó myndefni.

- Nokkrar niðurstöður úr Capacent könnun um áhorf á kvikmyndir og sjónvarpsefni og hlustun á tónlist hér á landi, sem einnig eru bornar saman við niðurstöður úr könnun sem fyrirtækið gerði árið 2011:

  • Aukið löglegt framboð tónlistar á netinu hefur dregið úr notkun ólöglegra leiða.
  • 16,9% aðspurða segjast hlusta á tónlist sem hefur verið halað niður af vefsíðu þar sem höfundur/rétthafi hefur ekki fengið greitt fyrir.
  • Um 18,8% segjast hlusta á tónlist í gegnum áskrift á streymiþjónustu sem greitt er fyrir.
  • Notkun „myndefni eftir pöntun“ – þjónustunnar (VOD) hefur aukist úr 27,0% árið 2011 í 43,1% árið 2014 fyrir kvikmyndir og úr 19,2% í 42,4% fyrir sjónvarpsefni.
  • Allt að 20.000 heimili í landinu eru með aðgang efnisveitum á borð við Netflix hér á landi.
  • Smávægileg aukning á áhorfi á kvikmyndir og sjónvarpsefni, sem halað hefur verið niður af netinu eða streymt af vefsíðu án þess að höfundur/rétthafi fái ekki greitt fyrir.

 Streymiþjónusta á Íslandi fyrir kvikmyndir, sjónvarpsefni og tónlist


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum