Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Úttekt á stærðfræðikennslu í níu framhaldsskólum

Að mati ráðuneytisins gefa niðurstöður skýrslunnar tilefni til umbóta í stærðfræðikennslu í framhaldsskólum

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hafa borist niðurstöður úttektar á stærðfræðikennslu í níu framhaldsskólum sem hópur kennara við Háskóla Íslands gerði að ósk ráðuneytisins. Hópnum var falið að skrifa skýrslu um fyrirkomulag, framkvæmd og árangur af stærðfræðikennslu í framhaldsskólum, sem að gagni mætti koma til að efla kennsluna og bæta.

Skólarnir sem úttektin náði til eru: Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Menntaskólinn í Kópavogi , Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Sund og Tækniskólinn.

Úttektin byggði m.a. á kennsluefni, kennsluáætlunum, prófverkefnum og öðrum námsverkefnum, spurningum til nemenda, kennara, skólastjórnenda og foreldra, sjálfsmatsskýrslum eða öðrum upplýsingum úr sjálfsmati,  heimsóknum í skóla, viðtölum, vettvangsathugunum á kennslustofum o.fl.

Helstu niðurstöður:

Í skýrslunni kemur fram að margt er vel gert í stærðfræðikennslu í framhaldsskólum. Þegar á heildina er litið eru framhaldsskólarnir þó fjarri því að uppfylla þær kröfur sem settar eru fram í áfangalýsingum aðalnámskrár frá 1999 og hæfniþrepum í aðalnámskrá frá 2011. Í mörgum tilvikum virðist áherslan vera á að nemendur læri tilteknar aðferðir við að leysa ákveðnar gerðir verkefna en stór hluti þeirra markmiða sem sett eru fram í aðalnámskrá gleymist. Úttektaraðilar telja að nýta þurfi tímann í kennslustundum betur – of mikið sé um að nemendur mæti seint og hugur þeirra sé ekki við námið. Sumir framhaldsskólar útskrifa nemendur af náttúrufræðibraut með prófgráður fyrir tiltekið háskólanám sem nemendur ráða í reynd illa við sökum lélegs undirbúnings. Sumir framhaldsskólar hafa ekki nægilega vel menntaða kennara til að starfrækja náttúrufræðibrautir. Samráð um stærðfræðikennslu er lítið, annars vegar milli framhaldsskólanna innbyrðis og hins vegar milli grunnskólans og framhaldsskólans. Ennfremur er lítið samráð milli framhaldsskólastigsins og háskólastigsins.

Að mati ráðuneytisins gefa niðurstöður skýrslunnar tilefni til umbóta í stærðfræðimenntun og hyggst að ráðuneytið skipuleggja aðgerðir með hliðsjón af tillögum úttektaraðila.

Úttekt á stærðfræðikennslu í framhaldsskólum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum