Hoppa yfir valmynd
29. október 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menningarráðherrar Norðurlanda funda í Stokkhólmi

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra stýrði fundi menningarráðherra Norðurlanda, sem haldinn var í tengslum við Norðurlandaráðsþingið sem nú stendur yfir og samráðsfundi með menntamálanefnd Norðurlandaráðs

Norrænir ráðherrar menningarmála Norðurlandaráðsþing 2014
Norrænir ráðherrar menningarmála Norðurlandaráðsþing 2014

Á fundi ráðherranna var rætt um ýmis málefni sem hæst bera í menningarsamstarfi þjóðanna undir merkjum norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál. Framkvæmdastjóri ráðherranefndarinnar kynnti áform um endurnýjun á stjórnarfyrirkomulagi skrifstofunnar og samstarfsmálum, og stefnu um markaðssetningu og kynningu á Norðurlöndunum. Fjárhagsrammi næsta árs var ákveðinn og rætt um skýrslu um starf Norræna menningarsjóðsins og Norrænu menningargáttarinnar og hugsanlega sameiningu þeirra. Sjá einnig hér að neðan.

Rætt var um framkvæmdaáætlun fyrir norrænu húsin og norrænar menningarstofnanir. Lögð var fram skýrslan „Kultur och hälsa - kartläggning av initiativ, forskning och utbildning i Norden“ og rætt um næstu skref um samstarf um heilsu og menningarmál.

Á samráðsfundinum með menntamálanefnd Norðurlandaráðs var rætt var um nýja úttekt á styrkjakerfinu, þar sem meðal annars var leitað svara við spurningunni um hvort sameina ætti Norræna menningarsjóðinn og Norrænu menningargáttina. Niðurstaða skýrslu, sem unnin var um þetta, er sú að hvorki sé ástæða til að hrófla við núverandi kerfi né að gera fleiri skýrslur og úttektir um málið.

Lof var borið á Norrænu barnabókarverðlaunin í umræðum um í átaksverkefni til eflingar á norrænum barna- og unglingabókmenntunum, þar sem gripið er til ýmissa aðgerða ásamt verðlaununum og sem tengjast þeim á einn eða annan hátt.

Norðurlandaráð beindi á árinu 2012 tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar þess efnis að hún kannaði möguleika á samnorrænni kvikmyndavefgátt fyrir skóla. Samtök danskra framleiðenda heimildarkvikmynda hafa, fyrir hönd annarra framleiðendasamtaka á Norðurlöndum, samið tillögu um að setja á laggirnar sérlega vefgátt fyrir heimildarkvikmyndir frá öllum Norðurlöndunum með yfirskriftinni „Nordic Documentaries with a Global Reach“. Verkefnið er enn í vinnslu og í máli ráðherra kom fram hann vilji leggja áherslu á mikilvægi þess að verkefnið taki enn sem áður mið af þremur markmiðum en þau eru: norrænn málskilningur, gæði heimildakvikmynda og að frágangur efnis geri það hentugt til kennslu í skólum. Þetta kallar á samstarf norrænna aðila með þekkingu á tungumálum, kvikmyndagerð og kennslu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum