Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Biophiliu kennsluverkefnið hafið 

Dagana 13. – 14. nóvember 2014 hittust fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum hér á landi til að ræða um Biophiliu aðferðafræðina, tengja hana við fjölbreyttar kennsluaðferðir og hefja samstarf milli landanna um þróun verkefnisins

Vinnufundur um Biophilia í Hörpu nóv 2014
Biophilia í Hörpu nóv 2014

Biophiliu kennsluverkefnið er eitt af formennskuverkefnum Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á yfirstandandi ári undir stjórn mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Það er viðamikið kennsluverkefni sem byggir á víðtækri þátttöku fræðimanna, vísindamanna, listamanna, kennara og nemenda á öllum skólastigum. Það byggist á því að nota sköpun sem menntunar- og rannsóknaraðferð þar sem náttúruvísindi, tónlist og tækni eru tengd saman á nýstárlegan hátt.

Biophilia samstarfsaðilar

Samstarfsaðilar frá öllum fimm Norðurlöndunum auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands hittust hér á landi í síðustu viku til þess að taka fyrstu skrefin í þessu norræna samstarfsverkefni. Hvert landanna hefur skipað stýrihóp og tilgreint svæði þar sem Biophilia verður kennd á næsta ári. Stýrihóparnir eru þverfaglegir og í þeim eru fulltrúar skólayfirvalda svæðanna, menningarstofnana og háskóla- eða rannsóknarstofnana. Verkefnið er til þriggja ára; árið 2014 fer í undirbúning, árið 2015 í framkvæmd á Norðurlöndunum og árið 2016 í mat og eftirfylgni.

„Það er sterk hefð á Norðurlöndum fyrir því að vinna þverfaglega og með skapandi hætti á öllum stigum menntunar. Það er mikilvægur hluti skólastarfsins og við vonum að Biophilia verkefnið styrki það enn frekar“ segja verkefnisstjórarnir Arnfríður Valdimarsdóttir og Auður Rán Þorgeirsdóttir, sem telja að fundurinn hafi gengið afar vel, mikill áhugi sé fyrir verkefninu og góður skriður kominn á það.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum