Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Íslensk tónlist í öndvegi á Eurosonic tónlistarhátíðinni í Hollandi

Mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði gesti í sérstakri móttöku fyrir velunnara íslenskrar tónlistar og forsvarsmenn evrópskra og bandarískra tónlistarhátíða.

Stærsta tónlistarhátíð Evrópu, Eurosonic Noorderslag, sem einnig er tónlistarráðstefna, hófst í Groningen í Hollandi í dag. Íslensk tónlist verður í brennipunkti á hátíðinni, sem haldin er í 29. skipti. Nítján íslenskar hljómsveitir og tónlistarmenn koma fram á hátíðinni, sem er vettvangur tónlistarfólks í Evrópu til þess að kynna tónlist sína og er heildarfjöldi flytjenda um 350. Fjöldinn allur af umboðsmönnum og fulltrúum stærstu tónlistahátíða heims sækja hátíðina.

Samhliða hátíðinni er haldin tónlistarráðstefna og EBBA-verðlaunin veitt. Það eru veitt tíu flytjendum sem hafa átt velgengi að fagna með fyrstu plötur sínar erlendis. Of Monsters and Men hlutu EBBA-verðlaun 2013 og Ásgeir Trausti í fyrra.

Ríkisstjórnin veitti styrk að fjárhæð 12 millj. kr. til ÚTÓN vegna þátttöku í Eurosonic Noorderslag. Framlaginu verður að hluta varið til víðtækrar kynningar á íslenskri tónlist sem kemur til með að nýtast á mjög breiðum grundvelli og ná til fleiri íslenskra listamanna en þeirra sem koma munu fram á hátíðinni að sögn forsvarsmanna ÚTÓN.

Á ráðstefnunni verður umfjöllun um íslenska tónlist með tveimur pallborðum, annað um tónlistartengda ferðamennsku og þróun Iceland Airwaves-tónlistarhátíðarinnar, sem þykir orðið ein af eftirtektarverðari hátíðum í Evrópu, og hitt um sögu íslenskrar tónlistar frá „Rokk í Reykjavík" eða upphafi níunda áratugarins. Einnig var móttaka í Statschouwburg tónleikasalnum í dag fyrir velunnara íslenskrar tónlistar og forsvarsmenn evrópskra og bandarískra tónlistarhátíða, þar sem Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði gesti. Einnig var m.a. frumflutt myndband um þann fjársjóð íslenskra sönglaga sem leynist í kistum íslenskra höfunda hjá STEF.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum