Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi til laga um Menntamálastofnun

Mennta- og menningarmálaráðherra mælti fyrir frumvarpi til laga um nýja stjórnsýslustofnun á sviði menntamála á Alþingi í dag.

Í frumvarpinu um Menntamálastofnun er m.a. gert ráð fyrir að hún hafi umsjón með námsgagnagerð, námsmati, greiningu og gæðamati. Með því gefist aukin tækifæri til að styrkja nauðsynleg tengsl milli aðalnámskráa, námsgagna, námsmats og gæðamats og til að vinna að umbótum á grundvelli þessa. Þá er með frumvarpinu leitast við að skerpa og styrkja stjórnsýslu menntamála, gæðastarf og þjónustu við skóla. Verði frumvarpið að lögum verður stofnuninni falið að sinna verkefnum Námsgagnastofnunar og Námsmatsstofnunar og tilteknum verkefnum sem ráðuneytið sinnir nú samkvæmt lögum um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og framhaldsfræðslu.

Í frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr. 91/2008 um grunnskóla er í fyrsta lagi leitast við að skýra betur valdmörk ráðuneyta sveitarstjórnarmála annars vegar og menntamála hins vegar, þ.e. innanríkisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis, hvað varðar kæruleiðir vegna ákvarðana sem teknar eru í grunnskólum á vegum sveitarfélaga og lúta að réttindum eða skyldum einstakra nemenda. Í öðru lagi er fjallað um skilyrði þess að sveitarfélag feli rekstur grunnskóla í hendur einkaaðila. Í þriðja lagi er lögð til orðalagsbreyting þannig að fjallað er um skólaþjónustu í stað sérfræðiþjónustu í ýmsum ákvæðum laganna. Í fjórða lagi er með frumvarpinu lögð til breyting á orðalagi í grunnskólalögum um samvinnu sveitarfélaga um grunnskólahald til samræmis við sveitarstjórnarlög frá árinu 2011.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum